Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Velvakandi og bræður hans (2)

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Velvakandi og bræður hans

Hér byrjar saga af einum karli og kerlingu sem bjuggu í einu koti. Þau áttu sér sex syni; þeir ólust upp hjá foreldrum sínum og var þeim ekkert nafn gefið. Þegar þeim fór að vaxa fiskur um hrygg þá vildu þeir fara í burtu frá foreldrum sínum til að mannast eitthvað. Þau létu það eftir þeim þó nauðugt væri þeim það; gengu síðan allir á stað með nesti og nýja skó. Nú ganga þeir langan tíma um fjöll og heiðar og dali þangað til að þeir koma í einn skóg. Þeir gengu um hann til og frá þangað til að þeir hittu sofandi karl og hjá hönum mikla hrúgu af kvistuðum og kurluðum við og var mikið meira ettir en búið var. So þeir tóku allir fyrir að kvista og kurla og eru búnir að því þegar karl vaknar. Hönum þykir mjög vænt um þeirra vinnu af því hann var búinn að gera fyrir sig og átti síðan á tilteknum tíma að borga sig út með þessu. Nú er hann í ráðaleysi að borga þeim þetta, spyr þá að heiti. Þeir segja að þeir séu ekkert nefndir. Hann segist vilja gefa þeim nafn fyrir. Þeir játa því. „Sá fyrsti skal heita Velvakandi, annar Velsporrækjandi, þriðji Velhöggandi, fjórði Velbjargklifrandi, fimmti Velgræðandi, sjötti Sítogandi.“ Þeir þakka honum fyrir og kveðja hann síðan og ganga á stað síðan þangað til þeir koma í eitt kóngsríki. Þeir biðja kóng um veturvist. Kóngur gerir það með því móti að þeir allir geri sömu þraut sem hann seti þeim fyrir: að þeir eigi að passa barnið sem drottningin sín eigi næst – „því hún er búin að eiga fimm dætur sína jólanóttina hvurja“ – og hafi það hvorfið þegar það var nýbúið að reifa þau, og verði þeir allir drepnir ef þeir geti það ekki. Þeir segja að þeir muni bera sig að reyna það ef þeir séu látnir vita það í tíma.

Nú líður og bíður fram eftir vetrinum þangað til á jólanóttina, þá leggst drottning. Þá var sótt yfirsetukona og allir bræðurnir; var síðan kveikt ljós um alla höllina so hvurgi var dökkur díll. Nú á drottning meybarn og var reifað og lagt fyri framan drottninguna í rúmið. Þá heyrir fólkið skelfing fagran söng á glugganum so allir duttu í fastasvefn nema hann Velvakandi; hann sér í einu kasti er brotinn glugginn og kemur þá inn um gluggann krumla með öngul í hendinni og krækir undir reifabarnið. Þá vekur Velvakandi hann Sítoganda og hann Velhögganda. Sítogandi grípur í krumluna, en Velhöggandi höggur af krumluna. Nú heyrðu þeir þvílíkt org að hvurt mannsbarn vaknar í höllinni. Um morguninn voru bræður snemma á fótum. Snjór var um jörðu. Þegar þeir komu út sáu þeir blóðferil; hann byrjaði hjá glugganum. Röktu þeir hann, fyrstur Velsporrækjandi og so hvur af öðrum þangað til að þeir komu að einu fjalli háu. Velhöggandi fer að högga spor og fóru so allir upp hvur á ettir öðrum og koma so upp á fjallið og hitta þar bæ; þar stóð kelling úti fyrir dyrum. Þeir heilsa henni; hún tekur því dauflega. Þeir spurja hana hvort það liggi illa á henni; hún biður þá að minnast ekki á það; kallinn sinn hafi brugðið sér bæjarleið og hafi misst aðra hendina. Þeir segja að einn sé hér í ferðinni sem geti grætt allt; glaðnar so yfir kerlingu. So er nú að segja af þeim sem inn fóru; sjá þeir skelfing stóran karl í bæli og hengir handleggsstúfinn fram á stokkinn og lagar þar úr blóðið. Drepa þeir so kallinn inni; so fara þeir út og þá voru hinir að klára kerlinguna. Þeir draga síðan karlinn út og seta hvorutveggja á bál. So þegar þeir vóru búnir að því fara þeir um kofana að gá hvort þeir finna ekkert þangað til þeir heyra barnsgrát. Þeir renna á hljóðið og finna kofa og brjóta hann upp og sjá fimm meybörn og er það elzta að gráta. Þeir spurja hana af hvurju hún sé að gráta. Hún segir að hann pápi sinn ætli að drepa sig til jólanna. Þeir segja henni að hætta að gráta; hún verði ekki höfð í þetta sinn til jólanna. So fara þeir með telpurnar og allt sem fémætt var; fóru síðan sama veg heim í kóngsríki. Gekk einn þeirra fyrir kóng og segir hvað hann mundi vilja gefa til þess ef þeir kæmu með telpurnar lifandi og heilbrigðar. Þau sögðu að þau ættu ekki til í eigu sinni sem þau vildu ekki láta fyrir. Þeir komu so með þær inn; varð þá fagnaðarfundur að sjá þær allar lifandi. Þær voru færðar úr þessum óhræsis tuskum, þvegnar allar upp og færðar í ný föt. Þær ólust so upp í ríkinu og kóngurinn lét kenna þeim öllum þessum bræðrum og fengu so sitt hvurja, urðu so kóngar sitt í hvurju ríki; lifðu so vel og lengi. – Og endar so þessi saga.