Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Vilfríður Völufegri

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Vilfríður Völufegri

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu; þau áttu eina dóttur er Vilfríður hét og þótti hún fegurst þeirra kvenna er þá lifðu. Þegar hún var gjafvaxta orðin andaðist móður hennar. Harmaði konungur hana mikið og sat jafnan á haugi hennar og gætti lítt stjórnar í konungsríkinu. Gengu þá menn hans til hans og báðu hann að létta harmi, en leita sér annars kvonfangs. Féllst konungur á það og gerði skip af landi til að leita sér nýs kvonfangs. Þeir sigldu lengi þangað til á þá komu hafvillur og lentu loksins við land nokkurt. Þar sjá þeir tjald fagurt á landi upp og gengu þangað. Var þar inni mær ein fögur og kembdi sér með gullkambi. Þeir spurðu hana að heiti; hún kvaðst Vala heita og vera konungsdóttir, en hefði orðið að flýja fyrir óvinaher sem ráðizt hefði að ríki föður síns. Þeir spurðu hana hvert hún eigi vildi með sér fara og lina harma konungs síns sem gréti látna drottningu. Hún kvað það vel mega vera, og sigldu þeir nú með hana heim til konungs síns. En er hann leit hana varð hann ástfanginn og gerði strax brúðkaup til hennar.

Ekki vildi Vilfríður konungsdóttir nein afskipti hafa af stjúpu sinni og var hún jafnan í skemmu sinni, og sárnaði drottningu það mjög, sem og hitt líka að hún var kölluð fegurri en hún og nefnd Vilfríður Völufegri, því drottning vildi að engin væri álitin fegurri en hún, og svall henni þetta mjög. Einhverju sinni fer konungur í hernað, og gengur þá drottning að skemmu Vilfríðar og býður henni að ganga með sér til skemmtunar. Gengu þær niður að sjó; þar lá eyja fyrir framan og stakk drottning upp á því að þær réru út í eyna sér til skemmtunar. Gerðu þær nú svo, en er minnst vonum varði stökk drottning út í bátinn og skildi Vilfríði þar eina eftir og mælti er hún fór: „Skyldi eigi fríðleikur þinn fölna við hungurdauðann?“ Nú er Vilfríður þar eftir í eynni og var stúrin mjög, en um kvöldið sér hún þar tvo menn á gangi og gengur í veg fyrir þá. Það voru dvergar tveir er bjuggu þar í steini einum. Þeir spyrja hvernig á því standi að Vilfríður Völufegri sé þar komin; hún segir þeim hið sanna og bjóða þeir henni þá inn í steininn til sín, og var hún þar nú um hríð og átti beztu ævi. En fyrir því tóku dvergarnir henni vara að hún eigi skyldi ljúka upp steininum þó stjúpa hennar kæmi, en sjálfir voru þeir jafnan í burtu um daga.

Drottning átti gler eitt gullbúið það er sagði henni allt það er hún spurði það um, og einhvern dag spyr hún glerið:

„Segðu mér það, glerið mitt gullinu búna,
hvernig líður Vilfríði Völufegri núna?“

Glerið svaraði:

„Lifir, lifir Vilfríður og fátt er henni að meini,
fæða hana dvergar tveir í steini.“

Við þetta sárnaði drottningu mjög og gerir hún nú ferð sína aftur út í eyna, kemur að steininum og heilsar Vilfríði. Segist hún nú vera komin af því að sig iðri þess hvernig hún hafi breytt við hana; vilji hún nú biðja hana fyrirgefningar og biður hana að lofa sér inn í steininn. Vilfríður stóðst ekki blíðu hennar og lýkur upp steininn. Faðmar þá drottning hana að sér og segist vilja kemba henni með gullkambi sínum; lætur Vilfríður það eftir henni. En í kambinum var eitur sem læsti sig í hár Vilfríðar og þaðan um allan líkama hennar. Hleypur drottning síðan út og læsir steininum og heldur að hún nú hafi Vilfríði í hel komið. – Um kvöldið er dvergarnir komu heim lá Vilfríður á gólfinu því nær að dauða komin, en með lyfum sínum gátu þeir þó læknað hana; og tóku þeir nú henni vara fyrir að ljúka ekki oftar upp fyrir drottningu. – Nú hélt drottning Vilfríði dauða og var glöð með sjálfri sér; þó spurði hún glerið einhverju sinni:

„Segðu mér það, glerið mitt“ o. s. frv.

Glerið svaraði eins og í fyrra skiptið:

„Lifir, lifir Vilfríður“ o. s. frv.

Fer hún nú til eyjarinnar í annað sinn og finnur Vilfríði í steininum. Hefur hún nú öllu fegurri orð en í hið fyrra skiptið og sýnir Vilfríði gullhosur er hún vilji gefa henni til sátta. Vilfríður lætur þá leiðast til að ljúka upp steininum og færir drottning hana í hosurnar. Og er hún var búin að því segir hún: „Brenndu nú og stiknaðu, bölvuð kindin,“ og hleypur út. Fannst Vilfríði þá sem eldur lysti sig um allan hennar líkama og lá hún sem dauð þangað til dvergarnir komu heim um kvöldið og færðu hana úr hosunum og dreyptu á hana svo hún lifnaði við aftur.

Einhverju sinni ennþá spyr drottning glerið sitt eins og fyrri:

„Segðu mér það, glerið mitt“ o. s. frv.

Glerið svaraði:

„Lifir, lifir Vilfríður“ o. s. frv.

Þá varð drottning mjög reið og fer til eyjarinnar í þriðja sinn og narrar hún nú ennþá Vilfríði með fagurgala sínum til að ljúka upp fyrir sér og gefur henni vín í glasi að drekka, en í víninu var eiturormur sem rann ofan í Vilfríði. Skellti hún síðan steininum í lás og lagði á dvergana að þeir yrðu að steinum hvar sem þeir væru staddir, og komu þeir nú ei um kvöldið til steinsins.

Í öðrum steini á eynni bjó huldukona og átti einn dreng. Hann var þetta sama kvöld að leika sér hjá steini dverganna og sá hvernig Vilfríður var á sig komin. Hann hleypur þá til móður sinnar og biður hana að hjálpa fríðu stúlkunni í steininum. Hún skundar þangað og sér nú hvernig komið er fyrir Vilfríði. Rjóðrar hún þá sætindum á varir hennar og fær þannig teygðan orminn fram úr munni hennar; dreypir síðan á hana og lífgar hana við og flytur hana í steininn til sín. Leið Vilfríði þar vel og lék hún sér við dreng huldukonunnar.

Nú þóttist drottning fullvissa um dauða Vilfríðar, en [þó] spyr hún einhverju sinni glerið:

„Segðu mér það, glerið mitt“ o. s. frv.

Glerið svarar:

„Lifir, lifir Vilfríður, fátt er henni að meini,
fæðir hana huldukona í steini.“

Verður nú drottning hamslaus og fer ennþá til eyjarinnar; sér hún þar nú ennþá Vilfríði og son huldukonunnar hjá henni. Bregður hún ennþá fyrir sig fagurgalanum og heilsar þeim með miklu blíðlæti. En allt í einu var huldukonan þar komin og heilsar drottningu blíðlega og býður henni inn í steininn. Drottning þáði það og veitir nú huldukonan henni af mikilli vinsemd og segir henni jafnframt að þar í eynni neðan undir hömrum viti hún af kistu fullri af gulli. Drottning var mjög ágjörn og vildi fá að sjá hvar kistan væri. Gekk þá huldukonan með henni fram á hamrana; en er drottning gægðist fram fyrir þá, hratt huldukonan henni fram af og andaðist hún þar í fjörugrjótinu neðan undir.

Huldukonan segir síðan Vilfríði að drottning þessi sem í rauninni hafi verið tröllkona hafi nú verið búin að myrða föður hennar svo ríkið sé forstöðulaust og því skuli hún nú halda heim og taka konungdóm og segist hún muni fylgja henni og sonur sinn. Fóru þau síðan öll til borgar og var Vilfríði þar vel fagnað og tekin til drottningar. Stjórnaði huldukonan með henni og fór allt vel fram. Síðan giftist Vilfríður syni huldukonunnar og eftir það fór huldukonan aftur í stein sinn.