Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Vonda drottningin

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Vonda drottningin

Einu sinni var konungur og drottning í ríki sínu; þau elskuðust mjög. Þau lifðu skamma stund saman og dó drottning eftir tveggja ára hjónaband. Þau áttu tvö börn saman og voru þau ársgömul þegar drottning andaðist; þau voru tvíburar.

Konungi féll mjög þungt lát drottningar sinnar og sendi ráðgjafa sinn til að biðja sér konu. Hann fór á stað og hafði alla hirðina með sér. Nú var búið út fagurt skip og haldið frá landi. Er þeir höfðu siglt í fjóra daga sáu þeir ey og á henni fagurt tjald gullofið; þar gengu þeir á land. Ráðgjafi fór inn í tjaldið og sá þar fagra konu vel búna. Hún heilsaði honum og tók hann vel undir og kurteislega. Honum leizt vel á konuna og bar upp við hana erindið. Tók hún því vel og sagðist fús til þess. „Ég hefi misst manninn minn fyrir rúmu ári,“ sagði hún – „og þykir mér því vel fallið að við konungur tökum saman.“ Fór hún þá með ráðgjafanum og sigldu þeir heim til konungs. Konungur fagnaði þeim vel og gjörði hann brúðkaupið sem veglegast verða mátti. Undi nú kóngur vel hag sínum, en ekki leið á löngu fyr en konungur sá að drottning hafði ímigust á börnunum.

Eitt sinn fór kóngur erlendis og er hann fór bað hann drottningu að gá vel að börnunum og hún hét því. Konungur hélt síðan á stað, en eftir viku tíma kallar drottning á börn manns síns. „Nú skal ég sýna ykkur nokkuð fallegt, börnin góð,“ sagði drottning. Fór hún þá með þau út og ofan að sjó. Þar stóð stór kista með stórum járnlás fyrir. „Fariðið nú ofan í kistuna, börnin góð, og þá skulið þið sjá nokkuð skrýtið.“ Börnin fóru í grannleysi ofan í kistuna, en vonda drottningin skelldi aftur kistunni og ýtti á sjó út. Börnin urðu hrædd og vissu ekki hvað þau áttu til bragðs að taka. Nú gjörði hvassviðri mikið og fundu þau að kistuna rak ótt áfram alltaf í sömu stefnu. Vissu þau ekki fyrri til en kistan stóð á kletti. Konungssonur tók kníf upp úr vasa sínum og gat tálgað gat á kistulokið og fóru þau þá upp á land. Gengu þau nokkra stund og fundu þá fyrir sér skála. Þar hékk auga illilegt og stórt úti fyrir bæjardyrum á nagla. Þau fóru upp á strompinn og leit kóngssonur ofan um hann. Sá hann þá kerlingu eina ljóta og heyrði hann hana segja: „Ekki ætlar hún systir mín að senda mér börnin konungsins.“ Konungsdóttur langaði og til að sjá kerlingu, en bróðir hennar vildi ekki leyfa henni það, því hann var hræddur um að hún mundi fara að hlæja. Þó lét hann það eftir henni, og jafnskjótt og hún leit ofan um strompinn og sá kerlingu rak hún upp skellihlátur. Kerling brá skjótt við, stökk upp og mælti: „Þarna eru börnin komin sem hún systir mín lofaði mér.“ Stökk hún út, tók augað og setti í sig. Náði hún þá börnunum og dró þau inn í kofann og lét þau þar inn í afkima einn og sagðist ætla að ala þau vel svo hún gæti fengið góða steik á nýárinu. „Þarna eigið þið að vera og rétta mér fingurinn á hverjum degi svo ég geti séð hvað þið fitnið.“ Drengurinn fann sauðarlegg og rétti henni hann á hverjum degi, en hún sagði alltaf: „Ekki ertu feitur, ekki ertu feitur.“ Kerling átti tvo stóra sauði, fjarskalega loðna, er henni þótti mjög vænt um og oft sagði hún við börnin: „Verið þið góð við kindurnar mínar, gjörið þið þeim ekki mein.“

Konungssyni og kóngsdóttur líkaði illa þessi ævi og þess vegna fann hann upp á ráði til að sleppa. Þessir tveir sauðir voru altént vanir að fara fyrstir út á daginn þegar kerling hleypti kindunum út. Konungsson tók það til ráðs að flá báða sauðina og kasta yfir sig og systur sína feldunum. Þetta gjörði hann og komust þau svo út. Tók hann þá augað úr kerlingu er eftir vana hékk úti á uglu. Þá kölluðu börnin upp og sögðu hátt: „Ekki skalt þú éta mig um nýárið, kelli mín.“ Kellingu varð bilt við og hljóp hún út og datt þá ofan í gröf stóra er var fyrir utan skálann og hálsbrotnaði. Börnin fóru nú að ganga um eyjuna. Sáu þau þá skip í hafi; hlupu þau þá til sjávar og æptu um hjálp. Skipinu var þá stýrt til lands og var það konungsskipið. Hann þekkti börn sín og fagnaði þeim vel. Stigu þau þá á skip og héldu heim. Sögðu þau föður sínum upp alla söguna.

Þegar konungur kom heim tók drottning vel á móti honum. Hann spurði hana hvernig börnum sínum liði og hvar þau væru. „Æ, þau eru dáin,“ mælti drottning, „og ég lét grafa þau.“ Konungur bað hana sýna sér legstað þeirra og fór hún með honum út í kirkjugarð og benti honum á tvær grafir og sagði þau væru grafin þar. Konungur bauð að grafa þau upp og var það gjört. Sá þá konungur hvers kyns var; hafði hún látið grafa hund og tík.

Konungur sýndi henni þá börnin og síðan var hún brennd á báli; og lýkur hér svo sögu hennar.