Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Frá fjalla-Eyvindi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Frá fjalla-Eyvindi

Svo segja gamlir menn hér í Hreppunum og það mun satt vera að árinu áður en hestur Einars[1] kom til Eyvindar hafi hann haft makaskipti við Jón Brynjúlfsson Thorlacius (langafa minn [2]) og selt honum Núp fyrir Hlíðarenda og flutzt þangað, en af vinfengi við Einar hafði Jón bóndi Þorleifsson (eða Þorsteinsson ) á Ásólfsstöðum tekið hest af honum til eldis sem hann hafði nýfengið að norðan. Jón ól hestinn vel allan veturinn og sleppti honum aldrei út, en á skírdag reið hann honum til kirkju í góðu veðri og svitaði hann á heimleiðinni, sleppti honum svo úti um stund til að blása og jafna sig, en þegar að var gáð var hann allur í burtu og röktu menn förin eftir hann inn fyrir Fossöldu, það er fyrir norðan veginn töluvert, og hlýtur hann seinna að hafa slegið sér austur á bóginn til að koma í Eyvindarver.

Sú sögn er til um Eyvind að hann hafi ekki hnuplað ostinum beinlínis frá kerlingunni. en tekið hann þó úr pokanum, gjörði gat á miðju hans og smeygði upp á miðklakk á hesti hennar af kerskni. Því reiddist kerling svo að hún lagði á hann, sbr. bls. 243. En þessi sögn er ekki sennilegri en sú sem í bókinni stendur þó hún sé hér algengari.

  1. Þ. e. Einars bónda Brynjólfssonar á Barkarstöðum í Fljótshlíð, sbr. Fjalla-Eyvindur og Fjalla-Eyvindur
  2. Þ. e. Brynjólfs frá Minnanúpi.