Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Árbæjar- eða Nýjabæjar-Skotta

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Árbæjar- eða Nýjabæjar-Skotta

Ólafur hét bóndi er bjó á Tinnárseli í Austurdal í Skagafirði; hann var haldinn fjölkunnugur. Einu sinni var hann á ferð í Svartárdal í Húnavatnssýslu og kom að Bergsstöðum um nótt, og þegar hann reið hjá kirkjugarðinum varð honum litið inn í garðinn og sá hvar maður var að glíma við nýuppvakinn draug, en draugsi var rétt búinn að keyra hann undir sig; þá kallar Ólafur til mannsins: „Bíttu í vinstra brjóstið á henni bölvaður.“ Ólafur reið sinn veg, en sagt er að maðurinn hafi notað ráð þetta og dugað, en maðurinn fekk öfundarhatur til Ólafs fyrir það hann kynni betur, að sagt er hann hafi strax búið út drauginn og sent Ólafi hann, en Ólafur var viðbúínn af fjölkynngi sinni og kom draugsa ofan í hrosslegg, lét hann ofan í kistuhandraða og geymdi hann þar meðan hann lifði, en rétt fyrir dauða sinn bað hann Guðbjörgu dóttir sína að brenna legginn að sér látnum, en varast að taka tappann úr.

Eftir andlát karlsins tók Guðbjörg legginn upp úr kistunni og af forvitni tók hún úr tappann; þá sá hún að fluga flaug úr honum og breyttist undireins í kvenmannsmynd og spurði hvað hún ætti að vinna. „Farðu að Nýjabæ,“ segir Guðbjörg, „og dreptu Guðmund bónda Nikulásson“ (Guðmundur þessi var faðir Guðm[undar] er lifir enn í Stigaseli í Skagafirði og dóttir hans Helga, ekkja Jóns prests Reykjalín á Ríp) því Jón maður Guðbjargar vildi hafa Guðmund af jörðinni, en flytjast þangað sjálfur.

Draugsa fór strax að Nýjabæ og hitti Guðmund bónda, en hann gat varizt draugnum. Um vorið flutti hann sig burt að Krákugerði því um veturinn var hann orðinn hálfær af aðsókn Skottu, en þá fluttu þau Jón og Guðbjörg sig að Nýjabæ; draugsa fylgdi þeim æ síðan og þeirra ætt og er ýmist kölluð Árbæjar- eða Nýjabæjar-Skotta.

Sagt er að Skotta hafi ráðið Jóni bana því þegar hann lá banaleguna vakti stúlka hjá honum með ljós; eitt kveld dró úr henni allan mátt og lagði hún sig fyrir og fannst henni að svefnhöfgi félli á hana; henni sýndist eða dreymdi að roðma miklum sló á ljósið og heyrðist gengið inn hjá sér og heyrðist henni soga eða korra í Jóni; og eftir það heyrðist henni gengið fram hjá sér; fekk hún þá máttinn aftur og hugði að karli, og var hann þá örendur.

Skotta fór nú að ganga um sættir og drepa ýmsar skepnur og var sén á undan er einhver kom af heimili Jóns og Guðbjargar.

Guðrún hét dóttur Jóns og Guðbjargar[1] og bjó í Héraðsdal. Skotta áreitti hana; Guðrúnu var því komið í burtu, að Vatni; þar bjó Jón bóndi. Þá bar lítið á aðsókn Skottu, en þegar hún fór heim aftur magnaðist ágangur Skottu og geðveiki Guðrúnar og tók Guðrún sig af lífi um síðir. Jón bóndi sá oft Skottu ganga um sættir meðan Guðrún var þar.

Margar sögur gengu af Skottu og ganga enn af hrekkjapörum hennar; hún drepur bæði fé og stórgripi bæði á Merkigili og víðar; stundum sést hún klifrast upp um bita í baðstofum og hanga þar á nóttum. Einu sinni sást hún sitja á fjóshaug og fleygja taðkögglum, en bola áttu þau Jón og Guðbjörg í fjósinu; einu sinni sóttu menn tarf að Miklabæ, en rétt áður en þeir komu rak kvíga upp óttalegt baul í fjósinu og datt dauð niður, en presturinn, séra J.. J...,[2] er þar var vildi synja þeim um bola því hann kvað þeir hafa illa fylgju þar sem Skotta væri.

Eftir það að Guðmundur bóndi var kominn í burt frá Nýjabæ að Krákugerði reið hann einu sinni út Uppsalamýrar í rökkri; þá vissi hann ei fyrri til en það var eins og fótunum væri kippt undan hestinum, og hraut Guðmundur af baki og fótbrotnaði. En þegar hann stóð upp aftur sá hann Skottu skoppa út mýrina og hverfa fyrir hæð eina.

Þegar Hjálmar bóndi bjó á Nýjabæ (sumir segja Bólu) kom hann einu sinni að Skottu er hún var að drepa sauð; þá rak hann Skottu út fyrir Tinná og hefur hún aldrei komizt síðan fram fyrir hana því Hjálmar var haldinn ákvæðinn.

Einu sinni sofnaði Páll fjármaður á Merkigili í fjárhúsinu þaðan er Miðhús heita, en þegar hann var að sofna kom Skotta þar og ætlaði að kyrkja hann, en hann vaknaði við og þá hvarf hún á brott.

Skottu er þannig lýst: Hún er á vöxt við tólf vetra stúlku; þó hefur hún stundum sýnzt sem tröll; hún er á mórauðu stuttpilsi og sauðsvartri peysu; stundum hefur hún sézt á skinnpeysu eða -fötum og með skúflausa skotthúfu mórauða.

  1. Börn Guðrúnar eru nú í Skagafirði, Eiríkur í Héraðsdal, Guðmundur í Litladal og Hjálmar á Kúskerpi [Jón Borgfirðingur.]
  2. [Mun vera Jón Jónsson, d. 1858.]