Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Átján draugar úr Blöndu
Átján draugar úr Blöndu
Árni sá sem nú lifir á Ásbúðum í Skaga, yfir áttrætt, bjó áður fyrri á Blálandi í Hallárdal og fór þaðan einu sinni fram í sveit og hafði tvo til reiðar. En er hann kemur að Blöndu á Hrafnseyri var orðið hálfrökkvað. Hann ríður út í ána, en er hann kemur í hana miðja stingur hann fótum fyrir, frýsar og vill ekki lengra fara. Og er Árni kemur honum ekki úr sporum veit hann að hesturinn muni sjá eitthvað það er hann ekki sá sjálfur, og tekur hann klútinn af hálsinum á sér og bindur fyrir augu hestinum og hélt hann þá áfram, en hinn hesturinn kippti þá af honum taumum og snéri við til sama lands. Heldur nú Árni áfram þangað til hann er að kalla kominn yfir um. Þá sér hann átján manns á bakkanum og heyrir að einn segir: „Hafið þið hljótt, hann Árni frændi minn á Blálandi kemur.“ Árni heldur upp á bakkann og veik sér að þeim er hann heyrði kalla sig frænda sinn, heilsar honum og spyr hvernig á frændsemi þeirra standi. Hann kvaðst hafa heitið Þorvarður Hallsteinsson og rakti saman ættir þeirra. Árni biður hann þá að sækja yfir um fyrir sig hestinn því sér hefði ekki tekizt að koma honum yfir um ána. Draugurinn gjörði það, en á meðan dreifðust hinir svo þeir hvurfu allir. Árni spurði þá hinn er yfir um kom hverjir þessir hefðu verið. Hinn kvað: „Það erum við sem drukknað höfum í Blöndu.“ Síðan hélt Árni leiðar sinnar fram undir Sauðanes; þar var þá konan, Sigríður, nýdáin. Þegar hann sá til bæjarins sýndist honum hann allur í loga, en þó hélt hann heim, og er hann kom á hlaðið hvarf loginn. En er hann ætlaði að bæjardyrum stóð þar kvenmaður fyrir og bandar honum frá. Hann spyr hver hún sé. Hún kveðst vera húsfreyjan hérna. Árni gengur hratt að og segir: „Lofaðu mér að, ég ætla að berja,“ og þá hvarf hún.