Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Átján sendingar í senn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Átján sendingar í senn

Eitt sinn var megn fjandskapur milli bænda tveggja; er það ekki fært í þessa sögu hversu hann var undir kominn. Þeir bjuggu sinn í hverjum fjórðungi lands, annar fyrir sunnan, en hinn fyrir norðan, á Grund í Eyjafirði; sá hét Sigfús. Einn sunnudagsmorgun snemma vaknar hann og liggur vakandi í rúmi sínu, og með því hann er maður skyggn og fjölkunnugur sér hann hvar koma átján menn vestan Yxnadalsheiði og ber þá skjótt yfir land. Hann skilur nú af fjölkynngi sinni hverjir þar færi, að vera mundu sér sendir af fjandmanni sínum hinum sunnlenzka. Sigfús bóndi klæðist skjótt, gengur til kirkjugarð[s] og vekur í skyndi upp einn draug, býr hann út og magnar sem mest hann má. Hann þykist vita að ekki muni tími til að vekja upp fleiri og fer því af stað með þennan eina á móti þeim því ekki vildi hann hitta þá heima hjá sér. Þegar hann var skammt eitt kominn að heiman, mitt á milli Grundar og Espihóls, mætti hann draugunum og voru nú ekki nema seytján. Sigfús spyr þá hvort þeir hafi ekki farið átján yfir Yxnadalsheiði. Þeir játa því og segjast hafa étið einn því húsbóndi þeirra hafi nestað þá illa. Þeir höfðu verið klukkustund frá Yxnadalsheiði og til þess saman bar fundum þeirra og Sigfúsar; en sá vegur er dagleið. Nú slær í bardaga með þeim. Lætur Sigfús draug sinn standa að baki sér og verja sig þeim megin. Varð Sigfús bani allra drauganna, fjanda sinna, en missti líka sinn draug; sukku þeir þar allir. Fundurinn varð í dæld einni og heitir hún Djöfladæld enn þann dag í dag miðja vega milli Grundar og Espihóls.