Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Ég er dæmdur

Úr Wikiheimild

12 . júlí 1847 var ég staddur að Stóru-Þverá í Fljótum. Foreldrar mínir áttu þar þá heima. Sagði þá móðir mín mér frá því að hún hefði heyrt þess getið um nýdáinn mann sem ekki var búið að kistuleggja (og líklega ekki heldur að sauma utan um) að hann hafi setzt upp og sagt: „Ég er dæmdur.“ Hné hann svo út af. Í annað sinn settist hann upp og segir: „Ég er dæmdur,“ og svo hné hann út af. Í þriðja sinn settist hann enn upp aftur og sagði: „Ég er dæmdur til dauða.“ Með það hné hann alfarið út af. Sagt er að maður þessi hafi verið ráðvendnismaður um ævi sína, og hélt móðir mín þess vegna að ekki mundi meining mannsins hafa getað verið sú að hann hefði „farið illa“, heldur mundi maðurinn hafa legið í dái, raknað við og fundið dauðann að sér steðja og svo talað þessum orðum í dauðans ofboði.