Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Ég var maður á minni tíð

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Einu sinni grófu menn lík í kirkjugarði og kom þar upp lærleggur mikill. Einn maðurinn sem var að grafartökunni – sá hét Daníel – var gjálífur og óorðvar. Hann tekur legginn og segir: „Andskoti hefur hann verið stór svarna,“ og fleirum hroðyrðum fór hann yfir beininu. Nóttina eftir dreymir Daníel að maður kemur til hans mikill og útlitsgóður og segir: „Leggðu það ekki í vana þinn að lasta bein dauðra manna; ég var maður á minni tíð engu síður en þú ert á þinni.“ Meira mælti hann ekki og hvarf honum síðan.