Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Írafells-Móri

Úr Wikiheimild
Ótitlað

Kort hét maður og var Þorvarðarson, bróðir séra Odds á Reynivöllum (1786-1804); hann var nefndarmaður og gildur bóndi; hann bjó lengst á Möðruvöllum í Kjós, en fluttist síðast að Flekkudal og dó þar 1821. Kort var tvíkvæntur; hét fyrri kona hans Ingibjörg, en hin síðari Þórdís Jónsdóttir. Ingibjörg var ættuð að norðan. Margir höfðu orðið til að biðja hennar áður en Kort, en hún synjaði öllum. Fyrri biðlarnir þóttust því sárt leiknir er Kort fékk hennar en þótt hann væri þeim flestum fremri um marga hluti. Þeim svall svo þetta um hjarta að þeir keyptu af galdramanni nyrðra að senda Kort og konu hans sendingu. Galdramaður valdi til þess drenghnokka einn er sagan segir að hafi orðið úti milli bæja; en galdramaðurinn vakti hann upp volgan eða ekki með öllu dauðan og sendi hann þeim Kort á Möðruvöllum og mælti svo um að draugurinn skyldi fylgja þeim hjónum og niðjum þeirra í níunda lið og vinna þeim margt til meins.

Þeir menn sem hafa séð Móra – og þeir eru ekki fáir – hafa lýst honum svo að hann sé í grárri brók að neðan og mórauðri úlpu fyrir bolfat, með svartan hatt barðastóran á hausnum og er skarð eða geil stór inn í barðið upp undan vinstra auga. Af úlpunni dregur hann nafn og því er hann Móri kallaður. Ummæli galdramannsins þykja hafa rætzt helzt of vel því þegar Móri kom suður lagðist hann að á Möðruvöllum sem ætlað var og gjörði þeim hjónum margar skráveifur með ýmsu móti, bæði fénaðardrápi og matskemmdum. En engin eru dæmi til þess að Móri hafi beinlínis drepið menn hvorki fyrr né síðar.

Það var einu sinni að þau Kort ólu kálfa tvo einn vetur. Þá báða elti Móri fram af hömrum sumarið eftir og fundust þeir þar dauðir fyrir neðan. Annað yar það að Kort átti meri eina; hún gekk eitt sumar með folaldi í heimahögum á Möðruvöllum. Seint um sumarið sáu menn að folaldið hljóp sem það væri ært orðið allt í kringum stein og datt síðan niður. En er til var komið lá folaldið dautt; hafði það fest endaþarminn á steininum og rakið svo úr sér garnirnar og dottið síðan niður dautt. Þetta var kennt Móra.

Með því Móri ekki átti að hafa verið með öllu dauður er hann var vakinn upp þurfti hann eins og allir slíkir draugar mat sinn fullan. Varð því að skammta honum ekki síður en hverjum heimilismanni bæði á Möðruvöllum og eins eftir það hann fór að leggjast að á Írafelli og fylgja Magnúsi Kortssyni og var maturinn sem honum var ætlaður ávallt settur á afvikinn stað. Þessu hafði Móri áorkað með því að hann húðskemmdi allt í búrinu á Möðruvöllum fyrir Ingibjörgu; sat hann þar stundum uppi á búrbitunum og gutlaði í mjólkurtrogunum með löppunum eða steypti þeim niður, sletti skyri bæði á hana sjálfa og upp um alla rafta eða fleygði torfi og grjóti ofan í matinn hvar sem stóð og spillti honum með því. Af þessu tók Ingibjörg það til ráðs að hún fór að skammta honum fullnaðarmat í bæði mál; við það lét hann mikið af matskemmdum. Einhverju sinni bar þó svo við að gleymzt hafði að skammta Móra að kvöldi dags. En um morguninn er komið var í búrið sáu menn hvar hann sat og hafði sína löppina niður í hverri skyrtunnu, en húkti á báðum tunnubörmunum; gjörði hann þá bæði að gutla í skyrinu með löppunum og sletta því með krumlunum. Eftir það var varazt að gleyma að skammta honum.

En það var ekki maturinn einn sem Móri þurfti; hann þóttist líka þurfa að hvílast eins og hver annar og því er sagt að eftir að hann fór að fylgja Magnúsi Kortssyni á Írafelli hafi hann jafnan orðið að láta rúmflet standa autt handa honum gegnt rúmi sínu og dugði engum öðrum en Móra að liggja í því.

Það var eitt sinn um réttaleytið að margt fólk var komið að Írafelli og hafði fengið þar næturgisting. Seinna um kvöldið kom þangað drengur einn og beiddist húsa. Magnús kvað honum húsin heimil, en hvergi gæti hann lofað honum að liggja nema á gólfinu eða ef hann vildi annars kostar liggja í fletinu á móti rúminu sínu og það þáði drengur með þökkum. Þegar hann leggst fyrir um kvöldið sofnar hann brátt; en þegar hann er nýsofnaður fer óttalega upp á hann svo að korrar í honum. Hrekkur hann svo upp og getur ekki sofnað væran blund alla nóttina fyrir einhverri ásókn. Daginn eftir var vont veður svo að gestirnir komust ekki í burtu og voru svo á Írafelli nóttina eftir. En um kvöldið tóku drengir nokkrir sig til sem áttu heima á Írafelli og þekktu Móra og höfðu oft verið í skítkasti við hann og festu hnífa allt í kringum rúmfletið svo oddarnir stóðu alstaðar upp af stokknum. Þá nótt svaf drengurinn vært og þökkuðu menn það því að Móri hefði ekki vogað að honum fyrir hnífsoddunum.

Eftir fráfall Korts heitins (1821) fylgdi Móri fyrst elzta syni hans Magnúsi er bjó lengi á Írafelli sem áður er sagt og af því Móri var þar lengst viðloða var hann kallaður Írafells-Móri og það nafn hefur síðan við hann haldizt. Auk þess sem áður er talið um ráðríki Móra á Írafelli með legurúm sitt er þess getið um Magnús að hann fór einhverju sinni fram á Seltjarnarnes er þar var fiskigengd mikil, en af því hann hafði ekkert skiprúm víst gekk hann milli skipa og fékk að fljóta hjá ýmsum dag og dag. Hjá Sigurði bónda í Hrólfsskála fékk hann að róa tvo daga samfleytt, en hásetar Sigurðar fóru þá að verða þess varir að Magnús væri ekki einn þar sem hann var og þriðja morguninn er Magnús var kominn upp í skipið og þeir Sigurður þegar komnir á flot fóru hásetar hans upp úr með Móra; enda er sagt þeir hafi séð eins og mórauðan hnykil eða hrossataðsköggul veltast með Magnúsi upp í skipið. Við þetta skipaði Sigurður sem bæði er haldinn greindarmaður og gætinn Magnúsi að fara upp aftur úr skipinu því hann vildi ekki flytja hann lengur hvort sem hann hefur sjálfur orðið nokkurs var um Móra eða hann hefur ekki viljað að hásetar sínir hefðu ótrú á Magnúsi og gætu kennt því um að óhöpp stæðu af honum ef illa til tækist.

Svo virðist sem minna hafi verið um illar aðsóknir á undan Kort eldra en sumum fyrri konu börnum hans og barnabörnum, hvort sem það er af því að lengra er liðið síðan hann var uppi og sögur þær séu því mönnum úr minni liðnar eða Móri hafi þá slegið sér meir á aðsóknirnar þegar hann fór að fylgja börnum Korts eða það hið þriðja sem nokkrum þykir líklegast að hann hafi ekki dirfzt að vaða eins uppi meðan Kort var lífs eins og eftir hann látinn. Skal nú hér sýnt með nokkrum dæmum hversu illa aðsókn þau Kortsbörn áttu og síðan barnabörn hans, að minnsta kosti börn Magnúsar, og hafa öll þau óhöpp sem öðrum hafa staðið af því fólki eins og veikindi þess sjálfs og fénaðardráp verið kennd Móra fylgidraug þess.

Það var eina nótt að húsfrú Ragnhildur á Meðalfelli í Kjós gat með engu móti sofið; önnur dóttir hennar svaf í sama húsi og hún, en hana gat hún ekki vakið með neinum ráðum. Henni heyrðist gengið inn í húsið um nóttina og setzt á tvo kistla er þar stóðu og eitt rúm hið þriðja sem enginn svaf þá í. En um morguninn í bítið komu þeir Kortssynir þrír, Magnús, Björn og Einar.

Jón bóndi Kristjánsson sem nú er í Skógarkoti í Þingvallasveit bjó áður en hann fór þangað á Meðalfelli í Kjós á móti húsfrú Ragnhildi. Jón varð fyrir því skakkafalli að kýr hans fannst einn morgun þegar í fjós var komið svo á sig komin að hún gat ekki staðið upp, en kvöldinu fyrir var hún hress og heilbrigð og mjólkaði vel; varð því að koma henni út með mannsöfnuði úr fjósinu á blóðvöllinn; því ekki var til annars að hugsa en drepa hana. Þegar búið var að flá hana var annað lærið undir skinninu helblátt svo því var fleygt. En sama daginn komu þeir Magnús og Björn Kortssynir að Meðalfelli og veitti Jón þeim átölur nokkrar fyrir það hvað illa aðsókn þeir ættu því þetta var kennt Móra.

Magnús á Írafelli átti einu sinni Hallgrímskver í bandi um tíma hjá Ásgeiri bónda Finnbogasyni sem nú er á Lambastöðum, en sem þá bjó í Bráðræði. Eitt kvöld var Ásgeir ekki heima, en kona hans beið eftir honum; vakti hún fyrst og var á fótum, en háttaði síðan og vakti við ljós unz Ásgeir kom heim. Síðan háttar hann og slökkva þau svo ljósið. Sá hún þá hvar strákur kom inn í húsið, settist á stól fyrir framan rúmið og lagði handlegginn upp fyrir rúmstokkinn, en hún svaf fyrir framan bónda; fannst henni handleggurinn svo þungur og fyrirferðarmikill að hún kallar upp og spyr hver þar sé eða hvort það sé Jóhannes, fóstursonur þeirra hjóna. En enginn gegnir að heldur. Hún spyr þá enn hver svo sem hún kvað á væri kominn og bað hann fara til hins neðsta og versta. Þá stendur sá sem á stólnum sat upp og glennir glyrnurnar móti tunglinu sem skein inn um gluggann; þaut hann síðan út um lokaðar dyr. Varð þá brestur svo mikill að kynjum gegndi og í sama vetfangi fellur niður hilla hinumegin í húsinu er var á ská til við rúmið; stóðu í henni bækur margar og þar á meðal Hallgrímskverið sem Ásgeir hafði tekið af Magnúsi til að binda. Uppi á hillunni voru og bollapör mörg og fóru þau eins og nærri má geta í smámola og hrutu víðs vegar um gólfið. Eftir þetta lét húsfrú Sigríður kveikja ljós og vaka hjá sér um nóttina og gat lítið sofið. En um morguninn í bítið kom Magnús að Bráðræði að spyrja eftir kverinu sem stóð í hillunni; var honum þá sagt hversu góða fylgju hann ætti.

Um Björn Kortsson var þess áður getið að hann hefði tvívegis átt illa aðsókn sem aðrir bræður hans. En tvisvar þóttust menn auk þess hafa orðið þess varir að Móri væri í fylgd með Birni. Maður nokkur mætti Birni einu sinni á norðurleið, en er þeir ætluðu að ríða hvor hjá öðrum fældust hestar hans og var það ætlun manna að þeir hefðu séð drauginn og fælzt hann þó maðurinn sæi hann ekki. Í öðru sinni var það að bærinn í Mýdal í Mosfellssveit stóð opinn eitt vetrarkvöld í tunglsljósi og góðu veðri. Einn af heimamönnum kom einhverstaðar að og er hann kemur í dyrnar sér hann strákhnokka stálpaðan innar í dyrunum sem hann kannaðist ekki við, en datt í hug að þetta mundi vera Írafells-Móri eftir lýsingunni sem hann hafði heyrt af honum. Maðurinn hugsar sér nú að króa Móra inni til að handleika hann og lokar hurðinni. Síðan lætur hann greipar sópa um bæjardyrnar og finnst eins og eitthvað verði fyrir sér, en þegar hann ætlar að grípa það líður það frá honum aftur svo hann gat ekki handsamað það. En snemma morguninn eftir kom Björn Kortsson að Mýdal.

Aðsóknirnar voru þó ekki hið eina illt sem menn ætluðu að Björn ætti upp á Móra. Björn var eins og allt það fólk vandaðasti maður í öllum háttum sínum, geðlipur framan af og góðlyndur, auk þess sem hann var mesti dugnaðarmaður, og því var það von að hann gengi mjög í augun á stúlkunum sem sagt er að hafi sótt eftir honum ekki færri en þrjár þegar hann var yngismaður í Hjálmholti. Er þá mælt að hann hafi tekið því í spaugi og sagt að það væri von að þær sæktust eftir honum Móra því honum var eins kunnugt og öðrum að Móri fylgdi ætt sinni. Ein af þessum þremur stúlkum varð hlutskörpust og sat uppi með Björn. En sumir héldu að þegar fram í sótti hefði Björn ekki tekið öllu af henni með spaugi eins og hann tók kerskimálum þeirra Hjálmholtsstúlkna því geðveiki ásótti hann mjög seinni árin er hann lifði svo ekki þótti dælt að lynda við hann; þótti það ekki sjálfrátt og var kennt Móra.

Einar Kortsson sem lengi var í Tjarnarhúsum hjá Lambastöðum bjóst einu sinni heiman að frá sér og ætlaði upp í Kjós til að finna þar frændfólk sitt því þar var Kortsætt mest. Þetta var snemma vetrar. Einar fór sjóleiðis yfir Kollafjörð og upp á Kjalarnes, en er hann kom þar var farið að dimma. Hann hélt þó áfram gangandi og kom eftir vökulok að Skrauthólum á Kjalarnesi. Þó Einar væri þar ekki með öllu ókunnugur vildi hann allt um það ekki gjöra af sér ónæði eða vekja þar upp er fólk var allt nýsofnað. Hann réð það því af að leita fyrir sér í fjósinu hvort hann gæti fengið þar afdrep að liggja í um nóttina. Þegar hann kemur þangað finnur hann þar auðan bás, leggst í hann og sefur af til morguns. Um morguninn er hann snemma á fótum og finnur bæjarfólk og biður það að misvirða ekki við sig að hann hefði gjört sig svo heimakominn að fara í fjósið og liggja þar í auða básnum um nóttina því hann hefði ekki viljað gjöra því ónæði. Heimamenn kváðu honum það heimilt og velkomið þó hann hefði vakið þá upp um nóttina, en verri þætti sér aðsókn hans því um morguninn áður en hann kom um nóttina eftir hefði bezta kýrin legið hálsbrotin og dauð á sama básnum sem hann hefði legið í og liti svo út sem Móri fylgifiskur hans og þeirra Kortsbarna hefði ætlað að ryðja til rúms fyrir húsbónda sinn er hann var væntanlegur og hefði þurft á básnum að halda sem nú væri fram komið. Eftir það fór Einar frá Skrauthólum og hélt áfram upp í Kjós um daginn. Kom hann þá snöggvast við á Grjóteyri því hann átti þar eitthvað kunnugt fyrir er hann ætlaði að finna. En svo vildi til sama morguninn sem Einar fór frá Skrauthólum að þá lá vetrungur dauður í fjósinu á Grjóteyri er að var komið og hafði hann hengt sig í nautabandinu; það var og kennt aðsókn Einars.

Enn er sú saga um Einar og Móra að Einar átti hest gráan, gripsval hið mesta er hann hafði miklar mætur á. Einn morgun seint á dögum Einars lá Gráni dauður upp í loft svo þétt fyrir framan bæjardyrnar í Tjarnarhúsum að hvorki varð komizt út né inn fyrir honum fyrr en hurðin var tekin af hjörunum. Þetta þótti og hafa orðið af völdum Móra.

Ýmsar fleiri skráveifur gjörði Móri Einari meðan hann fylgdi honum. Það var eitt að Einar varð stundum eins og spilltur maður í andlitinu eða holdsveikur, af útbrotum með hrúðrum og kýlum og rispum eins og köttur hefði klórað hann, en ef á hann var gengið af hverju hann hefði fengið það vildi hann ekkert um það segja. Annað veifið hvurfu þessi útbrot aftur og var þetta sem annað ókennilegt sem Kortsætt þykir fylgja kennt Móra. – Þá sáu menn og það oft til Móra að hann reið húsum hjá Einari, bæði bæjarhúsum og eins byrgi er hann átti, og trú var það að Móri væri löngum í því við sjóinn því oft varð vart við að hundar ærðust þar og sprungu með gelti og ólátum í kringum byrgið þó hvorki sæist menn né málleysingjar á ferð nærri byrginu.

Ekki hafa gengið miklar sögur af aðsóknum á undan Kort Kortssyni eldra, en þó þykjast menn kunna fyllilega frá því að segja að Móri hafi fylgt honum svo bæði hafi öðrum og sjálfum honum orðið mein að. – Veturinn 1833 stóð svo á að Þorsteinn bóndi í Þúfukoti í Kjós reri vetrarvertíð á Kjalarnesi og fór heim um páskana eins og siður er margra vermanna sem skammt eiga heim. Hann fékk hest að láni til ferðarinnar hjá Ólafi Ingimundarsyni í Mýrarholti á Kjalarnesi. En sama daginn fór og Kort Kortsson í Uppkoti í Eyrarhverfi heim til sín því hann reri og á Kjalarnesi þá vertíð. Af því Kort var gangandi bað hann Þorstein að reiða nokkuð fyrir sig. Var eitt af því skinnstakkur sem Þorsteinn batt fyrir aftan sig. Hélt Þorsteinn svo leiðar sinnar unz vegir skilja að Þúfukoti og Uppkoti. Þorsteinn ætlaði að halda heim, en koma ekki við í Uppkoti, en þegar hann beinir hestinum á þá götuna er lá heim að Þúfukoti fannst honum og heyrðist jafnvel sem þrifið væri til skinnstakksins fyrir aftan sig og í sama vetfangi datt hesturinn niður dauður undir honum. Móra var kennt um að hann hefði sligað eða drepið hestinn af því hann hefði viljað að Þorsteinn skilaði skinnstakknum heim til Korts. Kort heitinn var annars eins og mörg systkini hans hálfsturlaður á geðinu svo oft varð að hafa gætur á honum að hann færi sér ekki að voða er hann reyndi oft til þegar hann var svo á sig kominn. Í einu því kasti náði hann í hníf og skar sig þegar á háls, en þá var komið að honum og tekinn af honum hnífurinn. Var honum þá komið til læknis sem græddi hann og saumaði aftur saman vælindið, en af því saumurinn hafði ekki tekizt vel lét ávallt einhvern veginn ókennilega í kokinu á Kort þegar hann renndi niður. Seinast ætla menn að hann hafi dáið af þessu sama sári sem hann var einlægt að ýfa upp aftur þegar óráðið kom að honum.

Solveig Kortsdóttir giftist Magnúsi bónda á Hjallasandi á Kjalarnesi og hafa þau búið þar mestallan búskap sinn. Henni segja menn Móri fylgi sem öðrum þeim systkinum. Þau Magnús höfðu haldið vinnukonu sem Sigríður hét, en seinna fór hún frá þeim til Ásgeirs bónda í Bráðræði. Sigríður húsfreyja Ásgeirs og þessi vinnukona hennar voru einu sinni frammi í eldhúsi við einhver bústörf um kvöld. Þá segir vinnukonan við húsmóður sína: „Hvað skríður þarna á bakinu á mér?“ og lítur eins og aftur fyrir sig um leið. Húsfreyja segir að þar skríði ekkert á henni. En í sama vetfangi líður yfir vinnukonuna þar sem hún stóð. Komu þá til heimamenn og báru hana til rúms síns. Síðan rann af henni ómegið, en þá fékk hún ógurleg uppköst. En um það bil sem uppköstunum létti var guðað í bæjardyrnar. Vinnumaður einn heyrir það innar í bæinn og segir: „Fáðu fjúk hver sem þú ert,“ því hann áleit að þar kæmi sá er hefði sótt að Sigríði vinnukonu. Síðan var farið til dyra og var þar komin Solveig Kortsdóttir og spurði eftir sömu vinnukonunni sem í öngvitið leið, því hún hafði erindi við hana. Þetta ætla menn að hafi verið fylgja Solveigar, Írafells-Móri, sem sótti svo illa að Sigríði.

Þá er enn að minnast á viðureign þeirra Móra og séra Jóns Benidiktssonar sem nú er á Setbergi í Snæfellsnessýslu og á Guðrúnu Kortsdóttur frá Möðruvöllum. Séra Jón varð prestur á Svalbarði í Þistilfirði í Þingeyjarsýslu 1818, síðan í Goðdölum í Skagafjarðarsýslu 1838, þá fékk hann Breiðabólstað á Skógarströnd 1847, Hítarnesþing í Mýra- og Snæfellsnessýslu 1852 og Setberg í Snæfellsnessýslu 1855. Á öllum þessum brauðum er sagt að Móri hafi átt að glettast við þau séra Jón og konu hans nema hvað þess er ekki getið meðan hann var á Breiðabólstað.

Þingeyingar segja að Móri hafi mikið látið til sín taka um matskemmdir meðan séra Jón var á Svalbarði og sýnt honum þar ýmsan annan óskunda. Þar hafi og séra Jón kastað til hans vænum vatnsstígvélum og beðið hann að fara svo til hins neðsta og versta. Allir aðrir en Þingeyingar segja að séra Jón hafi ekki gefið Móra stígvélin fyrr en hann var kominn að Goðdölum, en mjög fer tvennum sögum hvar það hafi verið, hvort heldur á Mosfellsheiði er séra Jón kom að norðan eða á Holtavörðuheiði er séra Jón reið norður. Fyrri frásögninni hefur dr. Maurer fylgt, en ég læt mér á litlu standa hvor heiðin er og held mér þá við Mosfellsheiði þótt hitt geti vel verið.

Séra Jón kom þá að norðan sem áður er sagt og mætti þar Móra. Var Móri þá búinn að ganga af sér skó og sokka og gekk á berum kjúkunum og blóðrisa. Þar með var hann svo léttbúinn eins og hann ætti langa göngu fyrir höndum og hafði farið úr brókinni svo hann var ber upp í rass. Séra Jón grunaði þegar að Móri mundi ætla að heimsækja sig norður og gaf honum þar af sér væn vatnsstígvél eins og áður er sagt og grænan frakka, aðrir segja hatt, og bað hann aldrei vitja sín né sinna þaðan í frá. Sumir segja að Móri hafi heitið því, en aðrir segja að hann hafi heitið því þangað til hann væri búinn að ganga niður úr stígvélunum. Eftir það er sagt að þau séra Jón hafi verið laus við hann um tíma unz þau voru komin að Hítarnesi. En víst er um það að þó séra Jón hefði nú gefið Móra stígvélin meðan hann var á Svalbarði og eins þó menn á Suðurlandi segi að Móri hafi fyrst ætlað norður er þeir séra Jón mættust á Mosfellsheiði þá er sú sögn Skagfirðinga að Móri hafi gert vart við sig í Goðdölum því einmitt þess vegna kölluðu þeir hann „Goðdaladraug“.

Öllum ber saman um það að langur tími hafi liðið frá því séra Jón gaf Móra stígvélin af sér að Móri hafði ekki vitjað hans, og eru það Mýramenn einir sem kunna sögur um það að Móri hafi farið að gjöra vart við sig aftur hjá séra Jóni þau árin sem hann var prestur í Hítarnesþingum (1852-1855). Menn þykjast vissir um það að Móri hafi ekki gengið á heit sín og komið fyrri en hann var búinn að ganga niður úr stígvélunum, en þá gjörði hann líka vart við sig á þann hátt að hann ekki einungis drap fyrir séra Jóni beztu kúna sem hann átti í eigu sinni í fjósinu, heldur er sagt að hann hafi þríhryggbrotið hana, síðubrotið, hengt og hálsbrotið þar sem hún stóð á básnum, og varaðist séra Jón síðan að láta nokkurn nautgrip standa á hinum sama bás eftir það meðan hann var í Hítarnesi, og svo kvað rammt að þeirri trú að vinnukona ein sem verið hafði hjá séra Jóni í Hítarnesi og fór til eftirmannsins í brauðinu varaði prestskonuna við að láta enga skepnu á þenna bás. En prestskonan lét þangað kúna sem henni þótti vænst um og bezt var og hefur henni ekkert orðið meint af því enn í dag.

Auk ýmislegs peningsdráps og matspjalla er Móra voru kennd í Hítarnesi eftir þetta hjá séra Jóni sótti Móri að honum með hræðilegu svefnleysi, að minnsta kosti var það svo ef hann var annarstaðar nótt. Einhverju sinni sem oftar bar svo við að séra Jón var nætursakir í Vogi og fór hann að hátta eins og heimafólkið um kvöldið og sofnaði skjótt, að því sem stúlku þeirri virtist sem var á fótum og vakti lengur en hitt fólkið og var að gera eitthvað frammi í eldhúsi. Þegar hún hélt að allir væru sofnaðir heyrðist henni sem klórað væri í stofuhurðina að innanverðu þar sem séra Jón svaf; hún fer til og hlerar betur eftir og heyrist enn hið sama. Síðan gengur hún að stofuhurðinni og er þá hætt að klóra. Þetta gengur í þrjár reisur, að henni heyrist klórað í stofuhurðina, en er hún kemur að henni hættir ávallt þessi ókyrrleiki. Í þriðja sinni er hún heyrir þetta lýkur hún upp stofunni til að vita hvort þar kynni að hafa orðið eftir hundur eða köttur inni um kvöldið, en það var ekki og heyrði hún þá glöggt um leið að séra Jón svaf vært; síðan lætur hún aftur stofuna og fer svo að hátta þegar hún var búin að gjöra það sem hún átti að gjöra niðri við. En þegar hún er að hátta heyrir hún að lokið er upp stofunni og kemur séra Jón þar fram og kallar til fólksins og biður það um töskuna sem hann hafi reitt fyrir aftan sig því annars komi sér ekki dúr á auga í alla nótt. Stúlkan varð fyrir svörum sem var að afklæða sig og sagði að hann hefði þó sofið vært áðan er hún hefði komið inn í stofuna. Hann játaði því, en þeirri værð mundi nú lokið nema hann fengi töskuna. Hún sagði að taskan væri læst úti í skemmu og hún vissi ekkert hvað bóndi hefði gjört af lyklinum, en hann svæfi og gæti hún ekki verið að vekja hann. Séra Jón kvaðst allt um það vilja hafa töskuna ella kæmi sér ekki dúr á auga það sem eftir væri nætur. Var svo bóndi vakinn eftir lyklinum og taskan sótt. Tók séra Jón við henni alls hugar feginn og er ekki getið annars en hann svæfi vel og enginn ókyrrleiki heyrðist eftir það. En því ætla menn að séra Jón hafi svo ákaft viljað fá töskuna að hann hafi haft í henni einhver svefnmeðul; enda kvað hann ávallt gæta þess vandlega síðan að leysa töskuna frá hnakknum sínum, bera hana inn og hafa hana undir eða hjá rúminu sínu þar sem hann er nætursakir og því ætla menn að í henni sé annaðhvort einhver vörn við áleitni Móra eða svefnmeðul.

Magnús á Írafelli átti fjögur börn: Guðrúnir tvær, Guðríði og Guðmund. Guðrúnirnar gifti hann á sama hátt og Laban forðum dætur sínar, að hann hélt vinnumenn sem sátu síðan uppi með þær. Önnur þeirra átti Halldór nokkurn fyrir mann og munu þau eftir að þau áttust hafa verið um tíma í húsmennsku hjá Magnúsi eða haft einhverja litla sneið af jörðinni með honum. Einu sinni varð Guðrún veik og kom Móri til hennar þar sem hún lá í einhýsi og felldi fyrir henni öll bollapörin sem hún átti í eigu sinni ofan af hillu fyrir ofan glugga í sama herberginu er hún lá í og fóru þau eins og nærri má geta í þúsund stykki. Hin Guðrúnin giftist og vinnumanni föður síns er Ólafur heitir og hafa þau lengi búið í Reykjakoti í Mosfellssveit.

Er það sagt að Guðrún kona Ólafs sé oft veik bæði á geðinu sem svo mörgum af Kortsætt hefur verið hætt við og eins á líkamanum; hún hefur og misst fjölda barna og má vera að það sé meðfram orsök til veikinda hennar. Það er mælt að Móri hafi helzt eftir andlát Magnúsar tekið sér vist til matar hjá þeim hjónum Ólafi og Guðrúnu og að hann haldi til fyrir ofan gólfker mikið sem grafið sé niður til hálfs í búrinu. Þegar Guðrún er veik svo aðrir verða að gangast fyrir matseld er sagt að Móri setji upp á sig hundshaus og sé honum drums um að þiggja mat sinn af öðrum en Guðrúnu.

Engar sögur hafa farið af illum aðsóknum undan þessum tveimur systrum enda mun hin síðarnefnda sjaldan fara að heiman. Aftur á móti þykir Guðríður systir hennar eiga álíka aðsókn og flestir af fyrri konu börnum Korts. Einu sinni hafði húsfrú Ragnhildur á Meðalfelli sem fyrr er nefnd látið ala snemmborinn kálf og gjöra honum vel til í alla staði; leið svo veturinn af og fram í græn grös vorið eftir að honum var ekki hleypt út með kúm á morgnana fyrr en undir hádegi og tjóðraður í túninu þar sem bezt var, heldur gefið inni ýmislegt sem til féllst og var hann þá orðinn metfé eftir aldri. Einn morgun var kúnum hleypt út eins og vant var og farið síðan með kálfsdallinn út í fjós til hans. Þótti þá fjósakonunni enn heldur snemmt að hleypa honum út svo hún fór inn aftur að borða úr askinum sínum. En þegar hún kemur aftur út í fjósið sér hún að kálfurinn liggur steindauður á básnum með allar lappirnar út undan sér. Var hann svo dreginn út úr fjósinu og farið að gera hann til. En varla var búið að rista fyrir honum þegar Guðríður dóttir Magnúsar á Írafelli kom og töldu menn það víst að þetta hefði verið fylgjan hennar sem drepið hefði kálfinn. En þegar rist var á kviðinn á kálfinum sáu menn að magállinn var rifinn eftir endilöngu svo vömbin veltist út úr þegar rist var fyrir, því henni hélt ekkert nema skinnið, og öll innýflin voru marin.

Guðmundi syni Magnúsar á Írafelli fylgdi Móri ekki síður en Guðríði systur hans. Það var einn vetur að Ásgeir bóndi á Lambastöðum hafði látið son sinn Þorvald til kennslu að Reynivöllum til séra Ólafs Pálssonar, nú prófasts í Gullbringu- og Kjósarsýslu. En Þorvaldur fór heim til sín litlu fyrir jólin til að sitja þau í foreldrahúsum, en svo var ráð fyrir gjört að hans skyldi verða vitjað eftir þann tíma ef einhver yrði á ferð úr Kjósinni. Það var eitt kvöld á Lambastöðum að þau Þorvaldur og móðir hans sváfu tvö í húsi; framorðið var orðið og ljós voru slökkt, en þá varð Sigríði móður hans illt svo hún biður hann að kveikja aftur. Þorvaldur gerir það og þegar hann er búinn að því biður hún hann að sækja sér vatn að drekka og fara með ljósið með sér svo hann ræki sig hvergi á, því þó Þorvaldur væri þá ekki eldri en tólf vetra var hann ómyrkfælinn og þurfti ekki ljósið þess vegna. Fer hann svo eftir vatninu fram í eldhús, en skilur eftir ljósið í stofunni og stofuhurðina opna svo að glampann lagði fram í eldhúsið. Síðan tekur hann vatnið í glas og ætlar inn, en í því hann snýr sér við sér hann strákhnokka koma úr forbyrginu fyrir eldhúsinu inn á eldhúsgólfið, en hvorugum dyrunum hafði verið lokað kvöldinu áður. Strákur þessi stendur þar í ljósglampanum berhausaður með barðastóran hatt í hendinni og í mórauðri úlpu og rekur skyggnurnar kankvís og glottaralegur upp á Þorvald; horfast þeir þar í augu litla stund því Þorvaldur segist ekkert hafa óttazt hann, en virt hann grannt fyrir sér, og man hann það enn að honum sýndist strákur þessi allur loðinn í framan. En þegar Þorvaldur leit af honum augunum varð honum ærið hverft við svo að vatnið skvettist úr vatnsglasinu. En þá stökk upp skothundur sem lá inni í stofunni, með ógurlegu gelti og út í gegnum eldhúsið og út í tún og fleiri hundar með honum sem létu þetta ganga langan tíma. Daginn eftir komu tveir menn ofan úr Kjós að vitja um Þorvald og var annar þeirra Guðmundur Magnússon sem þá var í Káraneskoti. Þóttust menn þá vita að það hefði verið Írafells-Móri sem Þorvaldur hefði séð um nóttina.

Einar Kortsson átti fjórar dætur; tvær þeirra eru almennilegar, ein limafallssjúk, en hin fjórða þykir ekki með öllum mjalla. Hún heitir Guðrún og er sextán vetra gömul og hefur þó ekkert orðið kennt til þessa. Hún kvartar oft undan því að „skömmin hann Móri“ sé að hrekkja sig og klípa eða stríða sér. Nýlega fékk hún hnémein sem hún átti lengi í og sagði hún svo sjálf frá að það hefði komið af því að Móri hefði hrundið sér svo hún hefði dottið á stein með hnéð. En eins og hún kennir Móra um öll þessi óföll sín eins leikur orð á því að hann eigi að vera valdur að vitsmunaskorti stúlku þessarar þar sem hún er ekki talin öllu meir en hálfviti og þykir það líkt ýmsum aðförum Móra við aðra í Kortsætt.