Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Ísleifur lögsagnari og Kollsstaðabóndinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Ísleifur lögsagnari og Kollsstaðabóndinn

Þessi Ísleifur var lögsagnari og bjó í Eskjufirði. Eitt sinn kom bóndinn frá Kollsstöðum á Völlum til hans og urðu þeir ei ásáttir í viðræðum svo þar kom loks að þeir hétust hver við annan. Síðan reið bóndinn á burt, en Ísleifur var hinn reiðasti, tók hest sinn og reið eftir bónda. Riðu þeir báðir jafnsnemma í Eskjufjarðarána og drukknuðu báðir. Og að lítilli stundu sáu menn þá báða koma ríðandi upp úr ánni og stefna upp yfir fjall til Héraðs. Konan á Kollsstöðum var á hlaði þegar bóndinn reið í það; ætlaði hún þá að heilsa honum, en sá um leið að hann var dauður, en Ísleif sá hún stefna upp til Fljótsdals. Er mælt að hvor þessa drengja fylgi sinni ætt síðan.