Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Þú ert ekki búin að bíta úr nálinni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Þú ert ekki búin að bíta úr nálinni“

Þegar saumað er utan um lík á ekki að hnýta hnút á þráðinn, ekki þræða upp í hendina eða að sér og ekki bíta úr nálinni.

Einu sinni ætluðu konur að sauma hjúp um lík og varð þeim tilrætt um að ekki mundi saka þó bitinn væri þráðurinn úr nálinni og kvaðst sú er fyrst tók til að sauma mundi reyna það og svo varð. Varð henni þá eitthvað það að hún mátti hætta sauminu. Allar freistuðu hins sama og fór á sömu leið þangað til kom að þeirri seinustu. Tók hún líka til að sauma og þegar hún hafði saumað nálþráðinn á enda mælti hún: „Ekki finn ég neitt á mér.“ Heyrðist þá mælt: „Þú ert ekki búin að bíta úr nálinni.“ Ekki lét stúlkan sér bilt við verða, beit hún þá þegar úr nálinni og stakk henni um leið í il þess dauða og mælti: „Búin er ég að því.“ Varð henni og ekki meint við.