Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Þúfan

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Þúfan

Nú munum vér víkja að sögum þeim sem ganga af fjárgrefti og undrum þeim sem hafa orðið við haugbrot fornmanna og eru þær flestar teknar eftir sögn manna í Borgarfirði. Fólgið fé á að vera í hólum og haugum, fenjum, dýjum og keldum, og víða hefur það reynt verið að grafa það upp. En frá því hafa menn jafnan horfið fyrir sakir álags eða fávizku og hafa þeir kennt því um er að greftinum hafa starfað að þeir hafi séð ýms undur og ofboð. Stundum hafa næstu bæir eða kirkjur sýnzt standa í loga og það er algengast; stundum hefur sjór eða vatn sýnzt ganga á land upp eins og allt mundi fara í kaf þá og þegar, og stundum hafa sýnzt herflokkar. Enn hafa og ýms önnur undur orðið sem hamlað hafa fjárgreftinum, t. d. grafarmönnum orðið snögglega illt eða haugbúarnir komið til þeirra í svefni og ógnað þeim ef þeir héldu áfram o. s. frv., eins og þær sögur bezt sýna sem þar lúta að.

Þúfan
Það er sögn manna að á kotbæ einum vestur í Staðarsveit skammt frá Búðakaupstað eigi að vera fólgið fé í þúfu einni í vellinum. Þúfa þessi kvað ei hafa verið slegin á sumrum og hafa menn þar haft þá trú að af stæði einhver óhamingja ef svo væri gjört. Kaupmaður nokkur við Búðir heyrði þetta og vildi hann reyna hvað satt væri í sögunni. Hann fór einn góðan veðurdag um sumarið til þessa bæjar og hafði með sér menn nokkra. Ætlaði hann að grafa upp þúfuna og stakk upp þrjá hnausa. Þá leið yfir hann og lá hann litla stund í öngviti. Þegar hann raknaði við fór hann aftur til og stakk enn nokkra hnausa. Fór þá á sömu leið og áður, að hann féll í óvit, og var það nú lengur á honum en áður. En þegar hann kom til sjálfs sín sagði hann að enn skyldi hann til reyna og löttu hann þó allir er við vóru. Var nú liðið mjög að kvöldi. Stakk hann þá enn þrjá hnausa. En þá féll hann og í öngvit og var það miklu ógurlegast. Var hann þá borinn heim eins og dauður og lá hann svo alla nóttina. Um morguninn leið af honum aftur. Þá vildi hann ei reyna oftar enda vóru menn þá fúsastir á að hætta og vóru hnausarnir lagðir niður aftur.