Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Þeir koma þá fjórir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Þeir koma þá fjórir“

Þegar móðir séra Jóns Norðmanns var á Bægisá var þar önnur stúlka sem Guðrún hét og var Jónsdóttir. Hún var skyggn eða þóttist vera það og sagði oft móður Norðmanns frá því sem hún sá. Einu sinni voru þær báðar úti í fjósi. Þá sagði Guðrún: „Já, já, þeir koma þá fjórir, en engan þeirra þekki ég,“ Hinn kvenmaðurinn bað hana að láta engan heyra þessa vitleysu. Guðrún sagði þær skyldu bíða við, fjórir menn hefðu nú gengið fyrir fjósdyrnar. Daginn eftir var hlákuleysing og vonzkuveður og hugsaði móðir Norðmanns gott til að geta rekið á Guðrúnu stampinn því enginn mundi koma, og þegar komið var kvöld sagði hún við hana: „Ekki ætla þeir nú að koma snemma, þeir arna fjórir.“ „Bíðum við; ætli þeir séu ekki komnir nærri,“ svaraði Guðrún, „þeir komu núna rétt inn fjórir þeir sömu og í gærkvöldi.“ Litlu síðar var barið og voru þá komnir fjórir menn innan úr Kræklingahlíð er aldrei höfðu komið fyrr að Bægisá.