Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Þorgeirsboli

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Þorgeirsboli

Þorgeir hét maður sem margir kölluðu Galdra-Geira; bróðir hans hét Stefán, kallaður Kvæða-Stefán, því sagt er að hann kvæði og syngi viðbrigða vel; þeir voru Jónssynir. Hinn þriðji maður er enn nefndur sem Andrés hét; hann var móðurbróðir þeirra bræðra; voru þeir allir úr Fnjóskadal og reru haustvertíð í Hrísey á Eyjafirði. Þessir menn er sagt að hafi starfað allir að því að búa bola út. Sagt er að Þorgeir fengi sér kálf nýborinn hjá konu þar á eynni, skar hann síðan þar sem honum þótti hentast, fló hann aftur á malir, sumir segja aftur af mölum svo hann drægi skinnið allt á rófunni, og magnaði hann með fjölkynngi. Þó þótti þeim frændum þetta ekki nóg að gjört, heldur létu þeir í benina af átta hlutum, af lofti og af fugli, af manni og af hundi, af ketti og af mús og enn af sjókvikindum tveimur, svo níu voru náttúrur bola með nautseðlinu. Gat hann því jafnt farið loft sem lög og láð og komið fyrir sjónir í öllum þeim myndum sem í honum voru náttúrur og eftir því sem honum þóknaðist. Þó boli væri svo útbúinn sem nú var sagt þótti Þorgeiri ekki ugglaust að hann kynni að verða yfirstiginn, fékk hann sér því sigurkufl af barni og steypti yfir hann.

Af því Þorgeir gekkst mest fyrir að útbúa bola og magna hann var hann við hann kenndur og kallaður Þorgeirsboli enda þurfti hann fyrst og fremst á honum að halda til vika. Svo stóð á að Þorgeir hafði beðið konu þeirrar sem Guðrún hét Bessadóttir; en hún vildi ekki eiga Geira. Sendu þeir henni þá bola. Þó var það nokkra stund að boli gat ekki unnið á henni; en að lokunum fór svo að henni varð hvergi vært fyrir honum og þegar hún var flutt bæja á milli urðu stundum að fylgja henni sex og átta menn því fáum þótti sér fritt með henni. Þó var hún stundum gripin af hestbaki og snarað þrjá eða fjóra faðma burtu þó henni fylgdu svona margir; en aftur hafði hún frið fyrir honum annað veifið. Loksins beið hún bana af þeim skráveifum sem boli gerði henni.

Einu sinni var Guðrún stödd við kirkju; kvaldi þá boli hana svo í kirkjunni að hún hafði engan frið og fékk svo hörð flog að henni lá við meiðslum. Gekk þá maður út úr kirkjunni og sá hvar boli lá á húshlið; önnur hlið hússins sneri að kirkjunni, en á hliðinni sem frá sneri lá boli og hafði granirnar upp á húsmæninum svo maðurinn sá í opnar nasir hans. Sýndist honum leggja gráan streng úr nösunum og út að kirkjunni. En þegar maðurinn kom svo langt að hann sæi á hina hlið hússins var skrokkurinn á bola að hverfa burtu af húsinu.

Bóndi nokkur Magnús að nafni bjó á bæ þeim í Höfðahverfi sem Sund heitir. Kona Magnúsar hét Helga og var náskyld Guðrúnu Bessadóttur. Eftir lát Guðrúnar beindist boli helzt að Helgu og kvaldi hana sí og æ. Þá var kunnáttumaður uppi í Eyjafirði sem Torfi hét og átti heima á Klúkum. Torfi var beðinn að fyrirkoma bola og frelsa með því Helgu. Fór Torfi út að Sundi og sá hvar boli hélt sig; lá hann á baðstofunni uppi yfir Helgu og kvartaði hún mjög um hvað þungt væri ofan á sér, einkum á fótunum þó þeir væri naktir; enda lá boli rétt uppi yfir þeim. Torfi gat ekki fyrirkomið bola af því hann sagðist ekki vita hvort sigurkuflinum hefði verið hleypt ofan af barninu eða það hefði verið sprett á hann neðan á fótum og honum svo smeygt upp af því, því það væri ýmist, en í kuflinum væri hann illa vinnandi. Sögn manna var það að Helga hefði um síðir beðið dauðann af völdum bola og að hann fylgdi fólki hennar lengi eftir það.

Þó það væri upphaflega tilætlun Þorgeirs með bola að láta hann gera út af við Guðrúnu hafði hann til að gera ýmsar fleiri glettur þeim sem hann þóttist eiga varhefnt við því jafnan var boli honum fylgisamur og stundum nógu nærgöngull. Oft sendi Þorgeir hann til að ríða kúm annara manna og ónáða þær og rak hann þær oft afvega. Tíðum heyrðu menn hann og gaula í þoku og myrkri.

Þorgeir var eitt sinn kominn að Hallgilsstöðum og var þar um lestur, en gekk oft út undan lestrinum. Þegar búið var að lesa kom bóndi út með Þorgeiri og sáu þeir þá sem þokubelti norður til fjallsins, en annars var heiðskírt veður. Þá sagði Þorgeir: „Djöfull getur hann orðið langur núna.“ Ætluðu menn að hann ætti við bola og neytti hann þá þess að ein náttúra hans var af lofti. En litlu síðar rak á grenjandi byl og hugðu menn að boli hefði vitað það fyrir, og oft urðu menn slíks varir fyrir illviðrum og öðrum tíðindum.

Sagnir eru um það nyrðra að þau Húsavíkur-Lalli og Eyjafjarðar-Skotta, heldur en Hleiðrargarðs-Skotta, hafi slegið sér saman við Þorgeirsbola og ekið fram endilanga Fnjóská; en það var húðin af bola sem þau Lalli og Skotta sátu á, en boli dró allan drösulinn á halanum.

Þegar bola gekk ekki vel að koma því fram sem hann átti að vinna fyrir Þorgeir hvarf hann aftur heim til hans og beindist að honum sjálfum, gerði honum ýmsar glettur og vildi fyrirkoma honum. En þó Þorgeir væri vel fær í galdri veitti honum allörðugt oft og tíðum að verja sig fyrir bola og mátti alls til kosta ef einhver gutti hljóp í bola við hann. Einu sinni sótti boli svo fast eftir að ná lífi Þorgeirs að hann flúði ráðalaus undan honum inn í bæ til konu sinnar. Konan hélt á ungbarni sem þau áttu og ætlaði Þorgeir að taka það í þessum vandræðum og fá bola til að sefa hann með því. En konan bað hann í öllum bænum að gera það ekki, heldur skyldi hann taka kvígu sem þau áttu úti í fjósi og gefa honum hana. Það gerði Þorgeir, leysti kvíguna og hleypti henni út. En að stundu liðinni fannst kvígan öll sundur tætt í smástykki nálægt bænum. Síðan er ekki getið að hann hafi gert illt af sér til muna nema hvað hann ærði oft kýr eftir það. Hann fylgdi og ættmönnum Þorgeirs og ekki þorði Þorgeir annað en láta dætur sínar sem báðar hétu Ingibjörg bera rúnstafi í svuntum sínum til varnar sér fyrir bola.

Þegar boli sást var hann í ýmsum myndum eins og áður er sagt; stundum í mannslíki eða hunds, en oftast í nautslíki með horn, fleginn aftur á hala og dró húðina blóðuga á halanum á eftir sér. En í hverri mynd sem hann sást þótti hann ærið ljótur og voru flestir menn við hann hræddir. Það er sögn flestra manna að Þorgeir hefði ekki komið bola fyrir áður en hann andaðist enda er það í mæli að þegar Þorgeir lá banaleguna og var aðframkominn hafi grár köttur, aðrir segja svartur hvolpur, sézt liggja í hnipri á brjóstum hans og væri það ein mynd bola. Sumir segja að boli hafi verið búinn til í byrjun 18. aldar, en aðrir nálægt miðri þeirri öld.