Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Þorvarður prestur í Felli og Erlendur í Haganesi

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Þorvarður prestur í Felli og Erlendur í Haganesi

Erlendur er maður nefndur; hann var Halldórsson og var hákarlaformaður hjá föður sínum í Haganesi í Fljótum er þessi saga gjörðist. Einn tíma sem oftar reru Fljótamenn í hákarlalegu. Bar þá svo til að öðrum formanni, þeim er Jón hét, var vant eins háseta, en Erlendur hafði einn mann yfirskipa á sínu skipi. Jón bað því Erlend ljá sér manninn og játti Erlendur því ef maðurinn gæfi það eftir; var þessa þá leitað við manninn og var hann alltregur til, en lét þó til leiðast um síðir þá er Erlendur hét að bæta honum skaðann ef Jón fengi minna hlut en hann. Síðan lögðu menn í haf. En brátt féll á veður mikið af norðri með hinum mesta stórsjó og kafaldi. Undu menn þá upp segl og tóku að halda til lands hver sem búinn var. En er Erlendur kemur að landi er Jón þar kominn fyrir og skip hans farið í lendingu, en menn allir drukknaðir og voru líkin að skolast til og frá í brimgarðinum. Þeir Erlendur bera nú líkin undan sjó, þau er þeir náðu, og meðal þeirra mann þann er Erlendur léði Jóni; fann Erlendur ekki lífsmark með honum. Erlendur veitti honum síðan umbúnað og sæmilegan gröft að Barði. En nótt hina næstu eftir að hann var jarðsettur fékk Erlendur ekki sofið því maðurinn gekk þegar aftur og sótti fast að honum svo að hann hafði nálega engan frið, og fór svo tvær nætur eða þrjár að reimleikinn óx því meir sem lengur leið og kom Erlendi ekki dúr á auga.

Í þenna tíma var sá prestur að Felli er Þorvarður hét; hann var Bárðarson, ættaður vestan frá Hellnum og haldinn margkunnandi.[1] Réðu menn Erlendi að hann skyldi leita á fund Þorvarðar prests og vita ef hann fengi ráðið nokkra bót á meini þessu. Erlendur gerir nú svo og ríður inn til Fells og kemur þar sunnudagsmorgun fyrir embætti; er prestur þá í kirkju og hefur krosstré í kirkjudyrum svo sem vandi hans var til. Erlendur kveður prest, en hann tekur vel kveðju hans og spyr hvað valdi ógleði hans og dapurleik eður hvort hann hafi andvökur haft. Erlendur segir honum til vandræða sinna og biður hann að gera nokkuð. Prestur kvað ei mundi gott að dvelja ferð hans og lét honum mundi mál að sofna. Því næst gengur hann innar að altari og tekur þar út skíðissprota einn milli þils og altaris og selur í hönd Erlendi og biður hann ríða sem hvatast út aftur til Barðs og hafa sprota þenna í hendi, en varast að slá honum í nokkurn hlut; segir prestur hann muni fast sækja svefn á leiðinni, en ef hann sofni muni honum eigi auðið verða að vakna aftur til þessa lífs. En komist hann alla leið aftur að Barði þá skuli hann stinga sprotanum niður í leiði þess er hann ásótti og leggjast síðan til svefns, og vænti sig að muni hann sofna mega í næði. En meiri von lét hann þess að maðurinn myndi eigi með öllu örendur verið hafa þá er Erlendur bar hann undan sjó í fyrstu þótt eigi yrði vart við líf hans, og mundi það verið hafa vanhyggja nokkur. Erlendur þakkaði presti tillögur sínar og reið síðan út til Barðs og fór svo með öllu sem prestur hafði ráð til kennt, og tókst þegar af aðsóknin. En svo sagði Erlendur síðan að það hefði hann næst sér tekið að verjast svefni á leiðinni út til Barðs og hefði hann þó riðið slíkt sem af tók.

Erlendur þessi bjó síðan lengi í Málmey, næst fyrir Símon bónda, föður Gísla kaupmanns. En þessa sögu sagði réttorður maður er samtíða var Erlendi og vissi glöggt til um atburð þenna.


  1. Þorvarður Bárðarson varð prestur að Bergsstöðum í Svartárdal í Húnavatnssýslu 1715, fluttist að Kvíabekk í Eyjafjarðarsýslu 1725, en fékk Fell í Sléttuhlíð 1754 og þar dó hann 1767.