Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Andskotinn taki ísinn

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
„Andskotinn taki ísinn“

Seint á 18. og í byrjun 19. aldar var sá maður í Breiðavíkurhrepp fyrir sunnan Jökul sem Bjarni hét. Var hann ýmist kallaður Latínu-Bjarni eða Knarrar-Bjarni af því að hann bjó lengi á Knerri. Hann var vel að sér og skáld gott; hann var og fjölkunnugur mjög og gerði oft mönnum glettur, en einkum kvenfólki.

Einhverju sinni var Bjarni á ferð og kom að bæ einum og beiddist þar gistingar og fékk hann að vera. Um kvöldið var skammtað á þessum bæ svo kallaðar stórgriparuður, það kalla austanmenn hraun. Stelpa ein tíu eða tólf vetra var á bænum og hlotnaðist henni sterturinn; mun hún hafa verið hníflítil því hún tók freklega til matar síns með munni og höndum. Bjarni var mjög aðhlæginn og hæðinn og fór hann að hlæja þegar hann sá þessar aðfarir stelpunnar; bar þá ekki framar á neinu um kvöldið.

Mörgum árum síðar svaf Bjarni í rúmi sínu sem oftar; sótti þá ákaflega að honum, en þegar hann vaknaði sá hann stelpu standa fyrir framan rúmið og var hún mjög ófrýnileg; spyr hann hver hún sé: „Ég er sú sama,“ segir hún, „sem þú hæddir þegar ég át kýrstertinn forðum og skal ég nú launa þér það.“ „Með hverju ætli þú getir launað?“ segir hann. „Drepa mun ég þig,“ segir hún. „Ertu dauð?“ segir hann. „Víst er ég það,“ segir hún. „Hvað varð þér að bana?“ segir hann. „Það er nú saga að segja frá því,“ segir hún, „ég og bróðir minn vorum á ferð saman, áttum við að fara yfir fjörð sem ís var á, en áður en við fórum á ísinn komum við að bæ einum og beiddum að gefa okkur að drekka; stal ég þá tóbaksbita frá konunni meðan hún var að sækja okkur að drekka þótt bróðir minn bannaði mér það. Fórum við síðan út á ísinn, en þegar minnst varði brast hann. Var þetta bróður míns síðasta orð: „Guð hjálpi mér,“ en ég beiddi andskotann að taka ísinn. Skildi nú á millum okkar því hann fór vel, en um mig getur þú nærri hvað hefur orðið.“ Bjarni fór á fætur og kom hann stelpunni fyrir.