Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Bæjargilsdraugurinn á Húsafelli

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Bæjargilsdraugurinn á Húsafelli

Í fjallinu fyrir sunnan bæinn á Húsafelli er gil eitt stórt. Það rennur austanvert við túnið og svo ofan í Hvítá í Borgarfirði. Í gili þessu sem kallast þar Bæjargil er foss allmikill því nær miðhlíðis. Undir fossi þessum eða rétt hjá honum er sagt að maður einn hafi grafið fé sitt í lifanda lífi. Síðar dó hann án þess frekara sé tilgreint hvernig. Urðu menn þó brátt áskynja þess að hann mundi hafa gengið aftur til þess að vitja fjár síns þar hjá fossinum. Hafa menn oft séð draug þenna síðan; er hann lítill vexti, á mórauðri úlpu eða sauðsvartri. Hann leitar heim að bænum [á Húsafelli] í landsynningum, en gjörir ekkert illt af sér hvorki þar né annarstaðar svo frá sé greint.