Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Beinagrind staðarvinnumannsins
Beinagrind staðarvinnumannsins
Það bar til á Vestfjörðum að gengið var á reka sem tilheyrði kirkju ag fannst samtengdin öll af mannsbeinagrind og tunga heil í höfði. Var hún tekin og flutt heim að staðnum og látin á hurðarbaki í kirkju, en þar næst er grafið var var hún látin í gröfina, en morguninn eftir var hún komin upp úr gröfinni og lá ofan á leiðinu og var það reynt þrisvar þá grafið var, að láta hana í gröfina, en allténd fór á sömu leið. Var þetta svo gefið frá sér og hún látin liggja á hurðarbaki í kirkjunni.
Svo kom að því að prestur sama staðar lét prófast sinn taka sig til sakramentis. Fór þá heimaprestur að segja prófasti frá þessum atburðum. En þegar prófastur heyrði það vildi hann fyrir hvern mun fá að sjá beinagrindina og biður prest að láta einhvern af heimafólki sínu sækja hana, en af því myrkt var orðið vildi engi verða til þess nema ein vinnukona. Hún tók lykilinn og fór út í kirkju, [greip beinagrindina],[1] kom með hana og kastaði henni á gólfið, en þegar prófastur sér hana verður hann dauðhræddur, biður að taka hana sem fljótast frá augum sér. Bað svo húsbóndi vinnukonunnar hana að fara með hana aftur út í kirkju. Hún svaraði: „Ég lofaði einungis að sækja hana, en ekki að fara með hana aftur.“ Samt gjörði hún það fyrir bón prestsins því ekki var til annara að flýja. En þegar hún var komin miðja leið sagði beinagrindin á herðum hennar:[2] „Berðu mig, dragðu mig ekki.“ Þá segir stúlkan: „Krepptu þig þá.“ En þegar hún kemur að sálarhliðinu segir beinagrindin við stúlkuna: „Ég bið þig að standa við meðan ég segi þér frá mér.“ Hún gjörði það. Þá sagði beinagrindin: „Ég var fyrir eina tíð vinnumaður á þessum stað hjá presti nokkrum er dóttur átti. Fór þá svo að ég átti barn við henni. Af því varð prestur svo reiður að hann mátti ekki sjá mig. Varð ég svo að fara frá honum því bæði var það að hann vildi mér það aldrei fyrirgefa, enda mátti ég ekki vera á sama heimili og barnsmóðir mín. Nokkrum tíma þar eftir drukknaði ég í sjó og hefi ei getað rotnað meira en þetta. Nú þegar þú kemur í kirkjuna muntu sjá sönghús kirkjunnar fullt með fólk; muntu þar sjá mann með rauða húfu. Bið ég þig þá að kalla til hans þessum orðum: Þú þarna með rauðu húfuna, viltú ekki fyrirgefa hinum framliðna það sem hann hefir þér á móti gert? – Hann mun því ekki gegna. Skaltú svo kalla í annað sinn sömu orðum. Mun þá koma stanz á hann og líta utar eftir og svo skaltu í þriðja sinn kalla eins og fyrr. Mun hann þá segja já. Að því búnu skaltú fara út, en forðast að líta aftur. Líka bið ég þig að sjá svo til að ég verði grafinn næst þegar grafið verður; mun ég þá liggja kyrr. Hér vestarlega í túni er þúfa. Taktú nú vel eftir hvernig ég lýsi henni svo þú getir fundið hana. Í henni eru peningar sem engi hefir gagn af. Skaltú þá taka og hirða fyrir fyrirhöfn þína á mér. Muntú verða gæfukvenmaður.“
Þegar stúlkan kemur í kirkjuna sér hún eins og beinagrindin sagði að allt sönghúsið er fullt af fólki og einn með rauða húfu. Hún kallar og segir: Viltu ekki fyrirgefa etc. –, en rauðhúfumaður veitti því engi andsvör. Svo kallaði hún í annað sinn; fór þá eins og beinagrindin hafði fyrir sagt og eins í þriðja sinn. Svaraði þá rauðhúfumaður já. Að fengnu því svari sneri stúlkan sér við. En þegar hún ætlar að [ganga út][3] heyrir hún á baki sér að sagt er: „Sjá þú í mín augu hve rauð þau eru.“ Þá flettir hún [upp] um sig að aftan utanhafnarpilsi og segir: „Sjá þú í minn rass hve svartur hann er.“ Svo gengur hún inn í stað og lætur engan vita hvað gjörzt hafði.
Þegar næst var grafið leggur hún sín orð til að reynt sé að grafa beinagrindina og bar ekki á henni upp frá því.
Hún fann þúfuna eftir ávísun beinagrindarinnar og þar mikla peninga. Síðan giftist hún og eignaðist efnilegan mann, bjó í sókninni til ellidaga og varð mesta lánskona.