Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Beinagrindin í Hólakirkju

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Beinagrindin í Hólakirkju

Svo bar við eitt kvöld um vökuna að Jón biskup Arason á Hólum þurfti að fá bók nokkra sem lá úti í kirkju á altarinu. Hann spurði þá heimafólk sitt hvert nokkur vildi fara út í kirkjuna fyrir sig og sækja bókina. En þeim leizt ei á ferðina og varð engi til. Þá gekk fram vinnukona ein og sagðist skyldi fara. Hún tók nú við kirkjulyklinum og fór. En svo var til háttað að biskup hafði látið gera göng undir jörðunni úr húsi því er hann var oftast í og „slot“ var kallað og út í kirkjuna. Það gerði hann til þess ef óvinir kæmu að sér þá gæti hann komizt í kirkjuna því þar var helzt griðastaður.

Vinnukonan fór nú og gekk eftir undirganginum. Hún kom í kirkjuna, gekk að altarinu, fann bókina og tók hana. Gengur hún nú fram gólfið og ætlar út um dyrnar, en vill ei fara eftir göngunum inn aftur því henni þótti þar dimmt og draugalegt. En er hún kemur fram í kirkjuna verður henni litið yfir í bekkina kvenmannamegin. Hún sér þá að þar liggur mannsmynd og sýndist vera eins og skinin beinagrind með ljósgult hár á höfði. Hún vill vita hvað þetta sé, gengur að myndinni og spyr hver þar væri. Myndin segist vera kvenmaður, „og er ég nú dáin, en móðir mín lagði það á mig að ég skyldi ekki geta rotnað. Nú er ég hér komin til þess þú hjálpir mér ef þú getur.“ Vinnukonan segist ei vita hvert hún geti það og spyr hvernig hún eigi að fara að því. Myndin segir að hún skuli reyna að biðja móður sína að fyrirgefa sér brot sitt og taka af sér álögin, „því vera má að hún geri það fyrir lifandi mann sem hún gerir ei fyrir dauða; því það er sjaldgæft að lifandi menn biðji dauða menn nokkurs.“ „Hvar er móðir þín?“ segir vinnukonan. „Hún er nú hingað og þangað,“ segir myndin; „núna er hún til að mynda þarna inni í kórnum.“ Vinnukonan gengur þá inn í kórdyrnar og sér hún þá að þar situr kona ein gömul og heldur ófrýnileg með rauðan hött á höfði. Hún talar þá til hennar og biður hana að fyrirgefa dóttur sinni og taka af henni álög sín. Kerling tók því seint, en sagði þó að ei væri það oft að lifandi menn bæðu sig bónar og lét hún þá til leiðast. Vinnukonan þakkar henni fyrir það og fer nú fram aftur. En er hún kom fram aftur sá hún þar duft nokkurt eftir í bekknum sem áður var beinagrindin. Vinnukonan heldur nú áfram og í því hún fer út úr innri dyrunum á kirkjunni heyrir hún að sagt er inni í kirkjunni: „Líttu í rauð augu mín hversu rauð þau eru.“ Þá segir hún, en lítur þó ei við: „Sjáðu í svartan rass minn hversu svartur hann er.“ Kemst hún nú út úr kirkjunni, en þá sýnist henni allur kirkjugarðurinn fullur af fólki og heyrði hún þar mikið öskur og ólæti. Hún gaf sig ekki að því, en þá fór nú þó að fara um hana. Samt komst hún inn aftur í bæinn og fékk biskupi bókina. Þá kvað hún vísu þessa:

„Svo var röddin drauga dimm
að dunaði í fjallaskarði;
heyrt hef ég þá hljóða fimm
í Hólakirkjugarði.“