Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Beinagrindin og rauðklæddi maðurinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Beinagrindin og rauðklæddi maðurinn

Það bar til á einum kirkjustað að þar fannst einu sinni samanhangandi mannsbeinagrind ofanjarðar, liggjandi í kirkjugarðinum. Þegar jarðað var næst eftir lét prestur leggja hana í gröfina, en ekki leið langt áður en hún kom upp aftur. Prestur lét þó reyna nokkrum sinnum að jarða hana og kom hún alltaf upp aftur. Þá var hætt að reyna það og var hún þá lögð undir bekk í kirkjunni og lá þar lengi síðan.

Það var einu sinni á gamlaárskvöld að prestur ætlaði að fara að lesa. Þá mundi hann að Grallarinn hans var úti í kirkju síðan hann messaði næst áður. Þá segir hann: „Er nú nokkur svo ómyrkfælinn að geta sókt fyrir mig Grallarann út í kirkju?“ Vinnukona hans gegndi til og sagði það væri hægt að gera. Hún fór og sókti Grallarann, og bar ekkert til tíðinda. Þá segir prestur: „Ekki ertu myrkfælin, en þá skal ég fyrst hrósa því hvað huguð þú ert ef þú getur sókt beinagrindina út í kirkju.“ Hún sagði það væri ekki meira en mannsverk og fór og sókti beinagrindina og bar hana inn til prestsins. Hann sagði þá: „Huguð ertu, en farðu nú með hana út aftur.“ Hún fer, en þegar hún kemur í bæjardyrnar þá heyrir hún að beinagrindin fer að tala og segir: „Þegar þú kemur út í kirkjuna mun hún verða full af fólki og við altarishornið mun sitja rauðklæddur maður með rauða húfu á höfði, og ef þú getur komið mér í sátt við hann muntu verða mesta auðnukona.“ Hún hélt síðan áfram út í kirkju, og var það eins og henni var sagt að kirkjan var full af fólki. Henni brá ekki við það og gekk inn að kórstafnum, hvessti augun á rauðklædda manninn og sagði við hann alvarlega: „Láttu beinagrindina þá arna vera í friði héðan af í jörðinni.“ „Nei,“ segir hann, „það get ég ekki fengið af mér.“ „Ef þú gjörir það ekki,“ segir hún, „þá skulu allir árar að þér sækja og láta þig hvurgi hafa frið né ró.“ Þá dofnaði í honum hljóðið og sagði: „Fyrst svo mikið er við lagt, þá mun það verða svo að vera að ég láti beinagrindina í friði héðan í frá.“ Þá fór hún með beinagrindina þangað sem hún hafði verið og lagði hana þar. Þeir sem þar voru fyrir gáfu henni rúm. Síðan fór hún út aftur, en þegar hún kom utar á mitt kirkjugólf kallaði rauðklæddi maðurinn á eftir henni og sagði: „Sjáðu í mitt glóðarauga.“ Hún hugsaði að ef hún liti aftur mundi hún aldrei út komast. Hún lyfti þá upp pilsi sínu að aftan upp á bak og sagði: „Sjáðu í minn svartan rass.“ Og svo fór hún út og inn í bæ og lét ekki á neinu bera, og sá enginn að henni hefði brugðið. Nokkru seinna var jarðaður maður á þessum kirkjustað og þá sagði vinnukonan að reyna skyldi að grafa beinagrindina. Presturinn vildi það ekki og hélt það væri til lítils. Hún sagði það væri litlu til kostað og varð það úr að beinagrindin var jörðuð og kom hún aldrei síðan upp aftur. Eftir þetta sagði vinnukonan frá sögunni og þótti hún mikils verð. Litlu síðar giftist vinnukonan efnilegum yngismanni og varð mesta lukku- og sómakona.