Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Bergþór og flugan
Bergþór og flugan
Bergþór bjó á Hrakkellsstöðum (= Rafnkelsstöðum) fyri og eftir miðbik 18. aldar (lifði 1767). Hann var maður fjáður, einkum að sjávarútvegi og átti mörg skip. Það var þá siður að gjalda sjómönnum skiplag sitt í mjöli, hverjum tvo fjórðunga, eða þá annan í mjöli, en hinn í hörðum fiski, og færið skyldu þeir fá að vertíðarlokum; flestir létu þá fá stykki úr gömlu færi. Þar var með sjómönnum Bergþórs unglingspiltur úr Norðurlandi ósjóvanur. En er hann vó skiplagið í þetta skipti vildi hann ekki gjalda drengnum nema helminginn og lét hann gjalda þess er hann var ekki sjóvanur. Drengurinn krafðist þess og gat þess að hann væri ekki of birgur að útgerð, enda mundi hann eiga það sem aðrir sem á hans vegum reru. Kom hart í með þeim, en vann ekki á að heldur. Drengurinn sagði hann mundi ekki alla tíð á því lifa – „enda ertu ekki farinn að vega skiplagið að ári.“ Veturinn eftir þegar Bergþór sló upp méltunnuna til að gjalda sjómönnum sínum þá fló fluga upp úr tunnunni og ofan í Bergþór. Eftir það var alltaf ofan í honum að heyra sem suða í katli og verst þegar hann var í kirkju eður undir lestri. Þegar hann andaðist óaði alla hjá honum að vera og gat það engi nema Einar Gíslason, bróðir Guðrúnar konu Snorra í Lónshúsum. Var þá svo að heyra sem brakaði í hverju tré.
Sagði hann það væri önnur sú óskemmtilegasta nótt og hin þegar hann vakti yfir Þorsteini sýslumanni Magnússyni á Hlíðarenda; og sér hefði orðið hverft við þegar hann bar líkkistu á öxlunum til graftar – eins og þá tíðkaðist. Var hann lítill vexti, en fremstur undir kistunni. Skauzt þá líkið allsbert fram úr kistunni.