Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Betti

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Þegar sr. Ólafur Þorleifsson sem prestur var til Höfða frá 18[39 til 1866] (og sjálfur hefir sagt sögu þessa) var í Hólaskóla var honum samtíða sr. Jóhannes er vígðist til Grímseyjar 1803;[1] bar það við einn dag að maður sá er Vigfús hét, á Kjarvalastöðum en seinna á Hjallasandi, kemur heim til Hóla. En það hafði borið til áður að erringar höfðu gengið á milli Vigfúsar og Jóhannesar út af missögli Vigfúsar um Jóhannes. Nú fundust þeir og slóst í illdeilur. Sr. Jóhannes var mikill fyrir sér, stór vexti og rammur að afli; hann þrífur þá allt í einu svipuna af Vigfúsi og rekur skaftið svo fast á hægri kinn honum að tvær tennur hrukku úr þeim megin svo hann féll í ómegin (sr. Ólafur segist hafa staðið ásamt öðrum skólapiltum upp á bænum og horft á þetta), en raknaði skjótt við og kvaðst mundi launa honum kinnhestinn þó seinna yrði. Vigfús fór heim og átti lengi í þessu unz honum batnaði.

Nú varð Jóhannes prestur í Grímsey sem fyrr segir og bar fyrst ekkert til tíðinda. Nokkur ár eftir þetta var það einn dag að skreiðarskip kom úr landi til Grímseyjar og fyrir því sá formaður er Jónas hét og seinna bjó í Garðsvík. Prestur kemur út í því skipið er að lenda og segir við stúlku þá er hjá honum var: „Ég má gá að mér, því nú kemur kveðja frá Vigfúsi á Kjarvalastöðum,“ en eftir þetta fer að sækja að presti og má hann ei einsamall fara án þess að láta einhvern fylgja sér, bæði þegar hann þurfti að taka hey í tóftum og annað, og valdi hann til þess stúlku þá er var hjá þeim hjónum. Einu sinni segir hann þá tímar liðu, við stúlkuna að sér leiðist þóf þetta sem hann líði af völdum draugsa og segist vilja láta skríða til skara, og ráði hann það af að fara einn í heytóftir í kveld, en biður samt að vitja sín ef koma hans dragist venju fremur. Prestur fer svo einn, en þegar hann er kominn upp í garðann í fjárhúsinu og ætlar inn í kumlið er þrifið harðlega utan um hálsinn á honum og fær hann naumast varizt kyrkingu og þóttist aldrei fyrr hafa komizt í slíka aflraun. Gjörist nú atgangur harður í húsinu og hver raftur brotinn niður í því. Nú fer fólkinu að leiðast og fer til hússins; er þá prestur yfirkominn af mæði og eins og lurkum laminn og verður hann að njóta hjálpar heim til bæjar. Hann leggst svo eftir þetta í hálsbólgu og deyr skömmu síðar.

Eftir þetta fer að bera meira á reimleika í eynni og fóru menn að sjá draugsa í mannslíki. Oft var það síðar að ókunnugir menn heilsuðu upp á hann er þeir héldu mann vera, en ævinlega heyrðist þeim hann kveða við með dimmri röddu: „Betti, Betti,“ og gátu menn þess til hann í lífinu hefði heitið Benidikt.

Nokkru seinna varð stúlka bráðkvödd í dyrunum á prestsetrinu, sem kennt var Betta, en hún var skyld prestinum. Margar fleiri glettur gjörði hann þó hér séu eigi ritnar því um þær skortir upplýsingar.

NB. Sagt er að annað skip hafi farið til Grímseyjar er Jónas fór. Fyrir því var formaður sá er Jón Björns[son] hét, en þegar hann ýtti frá landi seinast sjálfur hafi hann átt að segja: „Þú skalt ekki fara til Grímseyjar með mér að þessu sinni, lagsmaður!“ en við hvörn að Jón átti vissu ei hásetar því þeir sáu engan. – Amen.


  1. Jóhannes Jónsson (1778-1805) var prestur í Grímsey frá 1803 og til dauðadags.