Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Bjarnanesdraugurinn

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Bjarnanesdraugurinn

Fyrir nokkru síðan er sagt að prestur sá hafi verið í Bjarnanesi er Jón hét og var Eiríksson.[1] Það var sagt að prestur þessi hafi verið svo harður í tekjum og drottnunargjarn að bændur máttu ei rönd við reisa. Konu átti hann er Ragnhildur hét; var hún ekki síður en bóndi hennar ágjörn og yfirgangssöm. Það var eitt til merkis hvernig hún var að þegar bóndadætur komu til kirkju og höfðu hreinlegt silki eða klút á herðum þreif prestkonan það af þeim og sagði um leið að slíkt hæfði ekki þeim pútudætrum; það hæfði betur dótt[ur] sinni (því þau hjón áttu eina dóttur barna). Af þessum ránsgripum var hún búin að fylla þrjár kistur og hafði enginn þorað að mæla eitt orð á móti þessu; svo var yfirgangur þeirra búinn að drepa allan kjark úr sveitarfólkinu.

Einu sinni sem oftar hafði bóndadóttir ein komið til kirkju og hafði sett á herðar sér þaraslæðu í silkis stað. Þegar prestkona sér þetta fagra silki kippir hún í það, en það rifnar fljótt. Verður hún þá byrst og segir að hún hafi gjört þetta til að narra sig. En móðir stúlkunnar tekur undir og segir að það verði að tildra því sem til sé; hún sé búin að sjá fyrir að hún og aðrar hafi ekki skartið. Einn góðan sunnudag fer prestkonan með kistur sínar upp á svo kallaðan Taðhól fyrir ofan flata túnið og tekur nú allt upp úr þeim og ætlar að viðra og breiðir nú um hólinn; gengur síðan heim og kallar á prest og sýnir honum þessi þing sín álengdar, en hann lætur þá lítið yfir og segir að þó hann hafi þókt vondur þá hafi hann þó ekki rænt leppunum af því – „og brúar mig að þú munir ei lengi njóta“. En hún setur háð í þessar tölur hans. Nú fella þau talið og ganga heim. En eftir lítinn tíma fer hún út aftur að vitja muna sinna; en þegar hún kemur upp á hólinn er þar kominn alrauður kálfur og er búinn að eta allt upp nema hann hefir seinasta silkið í kjaftinum og nær hún því hálftuggnu, en í sama bili hverfur kálfurinn og hefir ekki sézt fyrr né síðar. Nú fer prestkona raunamædd og reið og segir frá óförum sínum, en prestur segir sig hafa brúað við þessu.

Nú líður og bíður að þau eru þarna og breyta ei að heldur háttsemi sinni, að prestur verður einn morgun krankur, en er samt annað slagið á flakki um daginn. En í úthallinu biður hann konu sína að gefa sér skyr að borða. Hún sækir þá fullan ask af skyri og mjólk og lýkur prestur því, en að því búnu segir hann við konu sína: „Nú vitraðist mér í hvörn staðinn ég fer og mun þess ei langt að bíða að ég dey.“ Nú elnar veikin svo mjög að hann hefir öngan frið og svo fer að allir hörfa frá honum úr bæjardyralofti (því þar hafði hann rúm sitt og aðsetur), því bráðum fóru þeir að heyra hoppað og krafsað út á þekjunni eins og ótal djöflar væru þar upp á og seinast kvaldi dóttir hans sig yfir honum þar til hann seint um nóttina dó. Á venjulegum tíma var prestur grafinn, og eins og þá var siður með heldri menn að þeir voru grafnir innan kirkju var hann jarðaður fyrir framan kórdyrnar.

En bráðum fór að bera á því að prestur þessi lægi ekki kyrr, því menn sáu hann ganga um og á nóttinni var hann með umgang og bústang í bæjardyraloftinu svo menn gátu lítt sofið því þar hafði hann helzt haft maura sína. Á þessum draugagangi bar stöðugt í Bjarnanesi án þess hann gjörði verulega illt af sér eða að nokkur sögn sé til um það þar til síra Magnús, afi síra Magnúsar sem nú er prestur að Kirkjubæ, kom þangað.[2] Hjá síra Magnúsi var ráðsmaður sem Ísleifur hét og seinna varð bóndi á Svínafelli í Öræfum. Hann sagði svo frá að einu sinni þegar hann hefði verið í Bjarnanesi hefði hann farið út í kirkju og verið að lesa þar í skruddum sem hann hefði verið gefinn fyrir; hefði hann setið í kvensæti; þegar hann hefði verið búinn að sitja lítinn tíma hefði hann gáð að því að fjalirnar úr gólfinu fyrir framan kórdyrnar hefðu farið að bunga mjög upp og horfir hann á þetta þar til aðrir endarnir á fjölunum spruttu upp. Þá grípur hann hræðsla svo hann stekkur upp og upp á fjalaendana og svo fram, en lítur við þegar hann er kominn fram fyrir og sér þá hvar mannshöfuð svarthært er komið upp úr gólfinu. Bíður hann þá ekki lengur því hann þykist þá vita að þetta muni prestur vera með því hann hafði orðið var hans áður.

Öðru sinni seinna löngu var það að Jón sonur síra Magnúsar er síðar var bóndi í Hafnarnesi kom utan úr Selós í kuldaveðri. Gengur hann þá í kirkju að kistu sem hann á þar og ætlar að súpa á brennivíni sér til hita, en þegar hann hefir látið lykilinn í skrána verður honum litið inn í kórinn. Sér hann þar þá vofu er gægist fram úr kórdyrunum. Verður honum þá svo bilt við að hann tekur á rás og út, en dettur í því hann kemur út í garðinn. Sér þá annar maður til og kemur til hans og fylgir honum inn; en í því hann sér í ljósið í baðstofunni steinlíður yfir hann og var hann alla nóttina með þeim öngvitum. Var það sögn að það hefði verið sami draugur er hann sá.

Það hefir verið haft eftir madame Önnu ekkju Páls prófasts Thórarinsens að fyrst um vorið þegar fluttu að Bjarnanesi[3] hafi þau hjón sofið í bæjardyraloftinu áður en síra Þórarinn[4] var fluttur í burt, að hún hafi ekki getað sofnað eitt kvöld fyrir einhvörjum ókyrrleik þar til hún hefði farið að heyra eitthvört þrusk niðri og loksins að gengið var upp í stigann og upp að pallsnöfinni, en sér þó ekkert. Heyrir hún þá að dimm og ófögur rödd segir: „Þú átt ekki að vera hér; vertu inni!“ Hún kvaðst hafa orðið hálfsmeyk, en svarað þó að hún gæti það ekki meðan hjónin væru.


  1. Jón Eiríksson (d. 1690) var prestur í Bjarnanesi frá 1672 til æviloka. Alnafni hans, lítt kunnur, var þar prestur á 16. öld.
  2. Þ. e. Magnús Ólafsson prestur í Bjarnanesi 1785-1829 (d. 1834) og Magnús Bergsson prestur í Kirkjubæ í Tungu 1852-1868 og síðan í Heydölum (d. 1893).
  3. Þ. e. árið 1844.
  4. Þ. e. Þórarinn Erlendsson, síðar prestur á Hofi í Álftafirði (d. 1898).