Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Bræðurnir fyrir vestan

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Það voru einu sinni tveir bræður vestrá landi og var mikill ófriður á milli þeirra. Einu sinni lagðist annar þeirra í sótt og dó. Þegar búið var að leggja hann til þá sér fólkið að hann rís upp og tekur fötin sín sem héngu á stagi upp yfir hönum og fer í þau, og fer síðan út og tekur hestinn sinn út úr hesthúsi og ríður á stað og til mótstöðumanns síns, en hann hafði ekki frétt að hann var dáinn. Þegar hann kemur þá er bóndi úti. Sá dauði biður hann að fyrigefa sér. Hann segir það sé sjálfsagt. Sá dauði biður hann að gefa sér brennivín; hann fer inn í skemmu og kemur með flösku og fær hönum. Hann sýpur á og biður hann að súpa á með sér. Hann segist ekki geta það; hann biður hann aftur. Hann segist ómögulega geta það. Hann segir hann fyrirgefi sér þá ekki. Hann segist allt eina fyrirgefa hönum það. Hann biður hann í þriðja sinn; hann segist ekki geta það. Hann segir hann fyrirgefi sér þá ekki. Hann segist allt eina gera það fyrir því. Hann fær hönum flöskuna og stígur á bak og fer í burtu og heim til sín og inn og fer úr öllum fötunum og hengir á stagið og leggst síðan aftur. En um morguninn fannst hesturinn dauður í hesthúsinu og murinn bein frá beini. Og endar so þessi saga.