Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Brúðguminn og draugurinn

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Einu sinni voru fjórir menn að taka gröf að líki nokkru, sumir segja að það hafi verið í Reykhólakirkjugarði. Þeir voru allir kátir menn og þó einn þeirra glensmestur, ungur maður og fjörugur. Þegar gröfin fór að dýpka kom upp úr henni gröftur mikill og þar á meðal lærleggur af manni afskaplega stór. Sá af grafarmönnum er glensfyllstur var tók lærlegginn og virti hann fyrir sér og bar hann við sig og segir sagan að leggurinn hafi tekið honum í mjöðm af jafnsléttu og hafi maðurinn þó verið fullkominn meðalmaður á hæð. Að því búnu segir maður þessi í spaugi: „Það skal mér ekki bregðast að þetta hefur verið góður glímumaður og gaman væri að hafa hann í veizlunni sinni á síðan.“ Hinir tóku undir það að vísu, en töluðu þó minna um. Eftir það leggur maðurinn frá sér lærlegginn hjá öðrum grefti.

Síðan er ekki getið neitt um neitt þangað til fimm árum síðar að þessi sami maður er búinn að festa sér konu og búið að lýsa með honum tvær lýsingarnar. Eftir það dreymir konuefnið þrjár nætur í röð að henni þykir maður ógurlega stór koma til sín í svefninum og spyrja sig hvort mannsefnið hennar muni nú ætla að muna eftir því sem hann hafi kallsað við sig fyrir nokkrum árum og bætir því við seinustu nóttina að hann skuli nú ekki undan því komast að hafa sig fyrir borðgest í brúðkaupinu. Stúlkan gegndi þessu engu, en heldur fór að fara um hana í svefninum þegar hún heyrði þetta og af því hvað maðurinn var stór. Hún hafði ekkert getið um þessa drauma sína við mannsefnið þangað til hana hafði dreymt sama manninn þrisvar, þá segir hún við unnusta sinn um morguninn: „Hverjum ætlarðu að bjóða í veizluna okkar, hjartað mitt?“ „Ég veit það nú ekki, heillin mín,“ segir hann; „ég er ekki farinn að hugsa um það enn; ég ætlaði að láta lýsingarnar líða hjá fyrst.“ „Ertu þá ekki búinn að bjóða neinum enn?“ segir hún. Maðurinn segist ekki muna eftir því og fer nú að hugsa út í þetta og þótti það undarlegt að hún var svona áfjáð að spyrja sig um það. Eftir nokkra umhugsun segir hann að það sé af og frá um það, hann hafi engum boðið enn, en satt sé það að hann hafi fyrir nokkrum árum sagt í glensi við mannslærlegg sem komið hafi upp úr gröf að það væri gaman að hafa svo stórvaxinn mann í veizlunni sinni á síðan, en ekki geti hann kallað að hann hafi boðið neinum fyrir það. Heitmey mannsins varð heldur alvarleg við það og segir að það glens hefði ekki átt við og allra sízt við bein framliðinna – „og get ég nú sagt þér það,“ segir hún, „að sá hinn sami sem þú kallsaðir þetta við mun hafa fullan hug á að koma í veizluna okkar.“ Síðan sagði hún honum upp alla drauma sína og hver ummæli stóri maðurinn hefði haft síðustu nóttina. Unnusta hennar varð heldur bilt við þetta og segir að hún muni satt segja að slíkt gaman hefði betur verið ótalað.

Síðan fer hann að sofa um kvöldið eins og vant er, en um nóttina þykir honum koma til sín ógurlega stór maður, eins og risi og heldur ygldur og ófrýnn, og þykir hann spyrja sig hvort hann ætli nú að efna þau orð sín við sig er hann hafi sagt fyrir fimm árum, að hafa sig fyrir borðgest í brúðkaupi sínu. Maðurinn varð lafhræddur og sagði að það mundi verða að vera svo. Hinn sagði að hann skyldi ekki undan því komast hvort sem honum þætti það betur eða verr og hefði það verið þarfleysa að færa að beinum sínum og jafngott þó hann fengi smérþefinn af því. Eftir það fer draugurinn burtu, en maðurinn sefur af til morguns og segir konuefninu draum sinn og biður hana kenna sér ráð. Hún sagði að hann skyldi fá sér smið og efnivið og láta gjöra hús í skyndi sem samsvaraði stærð manns þessa sem hefði vitjað þeirra beggja í draumi svo hann gæti staðið þar uppréttur og ekki minna innanmáls á hvern veg en hæðin væri undir bita, og svo skyldi hann láta tjalda hús þetta eins og venjulegt er að tjalda brúðarsal og búa þar þessum boðsmanni hans borð með hvítum dúki og bera fyrir hann vígða mold á diski og vatn á flösku því annara rétta mundi hann ekki neyta, setja þar einn stól við borðið og sæng í húsinu ef hann vildi hvíla sig; þrjú kertaljós skyldi hann hafa á borðinu hjá honum og skyldi hann fylgja honum þangað inn, en varast að ganga á undan honum né heldur koma undir sama þak og hann. Engin boð skyldi hann heldur af honum þiggja hvað sem hann byði honum og tala sem skemmst við hann, en læsa húsinu og ganga frá honum þegar hann væri búinn að bjóða honum það sem á borð væri borið. Brúðguminn lætur nú fara að öllu eins og brúðurin hafði fyrir mælt, smíða einstakt hús á hæfilegri stærð og veita þar allan umbúnað sem nú var sagt.

Nú líður fram að veizludeginum og fer hjónavígslan fram eins og venja er til: því næst var setzt að veizlunni og svo er staðið upp frá borðum þegar aldimmt var orðið svo ekkert ber til tíðinda. Eftir það voru menn á reiki um brúðarsalinn, en sumir sátu við drykkju og skröfuðu saman. Brúðhjónin sátu enn kyrr sem siður er til. Þá var barið stórt högg að dyrum og verður öllum seint fyrir að ljúka upp; hnippir þá brúðurin í brúðgumann, en hann fölnar allur upp við það. Líður svo lítil stund og er enn barið eitt högg miklu stærra. Þá tekur brúðurin bónda sinn við hönd sér og leiðir hann sárnauðugan til dyranna og lýkur þeim upp. Sjá þau þar kominn afskaplega stóran mann og segist hann nú vera þar kominn til að sitja veizluna þeirra. Brúðurin ýtir svo brúðgumanum út úr veizluhúsinu til að taka á móti þessum gesti og biður guð að styrkja hann um leið og hún lætur aftur. En það er frá brúðgumanum að segja að hann fer með þenna mann með sér að húsi því sem hann hafði látið smíða handa honum og vísar honum þar inn. Komumaður vill að brúðguminn gangi inn á undan sér, en það vill hann ekki. Verður það svo úr að hinn gengur inn á undan og segir um leið að upp frá þessu skuli hann varast að færa nokkurn tíma að dauðs manns beinum. Brúðguminn lét sem hann heyrði það ekki, en biður hann að gjöra sér gott af því sem fram sé borið og misvirða ekki við sig þó hann geti ekki verið þar hjá honum. Hinn biður brúðgumann að koma þó inn til sín snöggvast, en brúðguminn vill það með engu móti. Þá segir draugur: „Fyrst að þú mátt ekki standa við hjá mér í þetta sinn eða koma inn til mín vonast ég þó eftir að þú gjörir það fyrir mig að vitja aftur heimboðs til mín.“ En brúðguminn neitaði því þverlega og skellir svo hurðinni í lás. Síðan gengur hann í brúðarhúsið og var þar allt heldur þegjandalegt því allir urðu hljóðir við þenna atburð. Brúðurin var ein með gleðibragði. Síðan fóru gestirnir að smátínast burtu, en hjónin tóku á sig náðir og sváfu af til morguns. Um morguninn vildi bóndi fara að vitja um gestinn sem seinast hafði komið kvöldinu áður. En brúðurin segir að hann skuli ekki fara þangað eitt fet fyrr en hún komi með honum. Ganga þau svo bæði til hússins, hún á undan og lýkur upp; er þá gesturinn allur á burtu og hefur lokið vatninu úr flöskunni, en dreift moldinni af diskinum um allt gólfið. „Þetta grunaði mig,“ sagði konan, „hefðir þú farið til hússins á undan mér og stigið einum þínum fæti í þessa mold þá hefðir þú horfið á vald draugsins og aldrei átt afturkvæmt meir í mannheima. En mig mun ekki saka þó ég stígi hér inn og skal ég sópa húsið og hreinsa.“

Aðrir segja svo frá að draugurinn hafi um leið og hann fór burtu aftur gengið annaðhvort að brúðarhúsdyrunum eða að svefnhúsdyrum þeirra hjóna og kveðið þetta:

„Ég þarf ekki að þakka
því ég fékk ekki að smakka
utan vatnið tæra
og moldina að hræra."

Eftir þetta vitjaði hann aldrei framar þeirra hjóna, en þau unnust bæði vel og lengi.