Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Brúðkaupsgesturinn

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Á einum kirkjustað á Íslandi bar það til að lík sálaðs manns skyldi jarða í kirkjugarði sem vanalegt er, en þar sem gröfin var tekin kom fyrir – og var mokað upp úr með moldinni – lærleggur úr manni mikið stór, en einn af þeim sem viðstaddir vóru, ungur maður og kátur, tók lærlegginn og var að bera hann við sig hvað hátt hann tæki sér og var að gjöra sér gaman að leggnum hvað stór hann var og spauga um að gaman væri að sjá þann mann sem svona stór bein hefðu verið í, og mælti: „Þessa og þvílíka pilta væri gaman að hafa í veizlunni sinni, og ef ég gæti skyldi ég bjóða slíkum í veizluna mína.“ Þá var hann spurður af þeim er hjá stóðu hvert hann mundi þó ekki verða hræddur ef hann kæmi í veizluna hans, en hann kvaðst hvergi mundi hræðast þó hann kæmi, því aðra eins gesti mundi bæði fróðlegt og skemmtilegt að hafa í boði sínu, „og skyldi ég víst segja þann mann velkominn“.

Síðan liðu nú ár og dagar og nýir tímar komu, þar til það kom fyrir að þessi fyrrnefndi ungi maður ætlaði að giftast og tíðin leið að brúðkaupsdeginum. En aðfaranótt brúðkaupsdagsins dreymdi brúðgumaefnið að til sín kæmi maður mikið stór vexti, skrautbúinn og vel í vexti, tignarlegur í andliti og alvarlegur á svip. Hann mælti heldur styggur: „Nú ætla ég að koma til þín á morgun og vitja þess er þú bauðst mér þegar þú varst að gjöra þér gaman að beininu úr mér; þú manst líklega hvað það var, og er þér nú ráð að enda vel orð þín, ella mun þér ekki vel duga; líka læt eg félaga mína fylgja mér.“ Að svo mæltu hvarf hann, en hinn vaknaði og þótti draumurinn ekki góður og iðraðist nú heldur hvað fjölorður hann hefði verið forðum í að bjóða þeim er beinið átti, og um morguninn brá mönnum illa við er þeir sáu brúðgumann mjög óglaðan og sem óttasleginn eða kvíðandi í stað þess er þeir áttu von á að sjá hann fjörugan, glaðan og gott hugsandi um brúðkaupið, en enginn vissi hvað slíku mundi valda. Loksins fór presturinn sem átti að gefa hann saman við konuna að spyrja hann hví hann væri svo hnugginn, og þá sagði hann presti að hann ætti von á gestum sem hann væri hræddur um að lítil veizluprýði mundi að þykja. Síðan sagði hann presti alla sögu, hvað hann hefði talað fyr við gröfina og svo hvað hann dreymdi. Prestur kvað hann ekki skyldi það hræðast, „og mun ég,“ mælti hann, „svo um sjá að þetta verði þér ekki að meini, og var betur þú sagðir mér hið sanna“.

Nú sagði prestur svo fyrir að tjalda skyldi litla stofu, setja þar borð og bekki og búa vel um. Síðan lét hann setja þangað flöskur og staup og það fyllti hann af vígðu vatni. Svo lét hann setja á borðin diska og allt það er til máltíðar þurfti, skeiðar, hnífa o. s. frv., en diskana fyllti hann með vígða mold. Svo var settur til maður að hafa gát á þegar hinir ókunnu boðsmenn kæmu og vísa þeim til sætis í fyrnefnda stofu, og í það mund er fólk settist til borða komu tólf menn stórir vexti og var einn stærstur og gekk sá fyrir, og helzt gengu þeir þar sem skjól var eða skugga bar á. Var þeim þá vísað til sætis og það þáðu þeir. Svo var hellt á staup fyrir þá og þeir drukku vígða vatnið; síðan sátu þeir þar um daginn með glöðu yfirbragði, borðuðu moldina og drukku vatnið, en ekki töluðu þeir orð, og um kvöldið stóðu þeir undan borðum, hneigðu sig hæversklega og gengu burtu, og þókti þessi atburður hinn kynlegasti. En þó sumum þækti þeir geigvænlegir varð engum þar koma þeirra að meini.

Leið svo kvöldið til þess fólk fór í rekkjur, þá háttaði brúðguminn hjá brúðinni og sofnaði sætan eins og þeim mun kunnugt vera er þvílíkt hafa hlotið og reynt, en um nóttina dreymir hann að fyrnefndi stórvaxni gesturinn kom til hans með glöðum svip og þakkaði honum alúðlega veitingarnar og mælti: „Illa hefði nú farið fyrir þér, hefðir þú ekki notið að þér vitrari manna; en fyrst að þér heppnaðist svo vel að enda orð þín þá vil ég nú sýna þér það vináttubragð aftur á móti að bjóða þér að koma til minna heimkynna og þiggja veitingar hjá mér nú í nótt.“ En er hinn ungi maður hugsaði hver munur á því væri að hvíla í faðmi hinnar ungu konu í brúðarsænginni og hinu, að hverfa til bústaða þeirra dauðu í dimmu grafarinnar þar sem er svo kalt og hart, þá fór um hann kuldahryllingur; andvarpaði hann þá og mælti: „Hvernin kann ég sem er lifandi að geta fylgt þér til þinna heimkynna í ríki þeirra dauðu nema svo aðeins að ég yfirgefi allt sem ég hefi hlotið í lífinu og einnin lífið sjálft, og hvernin geturðu ætlazt til að mér sé það geðfellt á þessari stundu sem er vordagur yndisins og árstíð ástarinnar? og bið ég þig þess vegna fyrirgefa mér þó ég hafni þessu boði þínu.“ Þá mælti hinn aðkomni: „Ekki er annar kostur en þú farir með mér og þiggir boð mitt, og skal ég ábyrgjast að þig skal í engu saka og skal ég fylgja þér heim aftur til konu þinnar með heilu og höldnu áður en ljómar af degi.“ Sá þá hinn að hann hlaut að fara.

Því næst þykist hann klæða sig með flýtir og fylgja hinum ókunna manni þangað sem að gröfin var tekin um árið og stóri leggurinn kom upp úr. Tók þá förunautur hans í hönd honum og hvarf með hann þar niður í jörðina; liðu þeir svo gegnum þau myrku fylgsni jarðarinnar þar til þeir komu að húsi einu fögru, þar leiddi sá stóri maður gest sinn inn. Húsið var fagurt innan og ljómaði af mörgum ljósum. Þar vóru fyrir ellefu menn og fögnuðu þeim vel. Var þar vín og vistir á borð borið og var það hin ágætasta fæða og bezta vín. Settust þeir síðan allir til borðs og borðuðu og drukku sem þá lysti; vóru þeir allir glaðir og viðmótsgóðir við gest sinn og þókti honum samkvæmið hið skemmtilegasta. En er þeir höfðu lengi nætur setið og glatt sig við vín og vistir, skemmtilegar ræður og frásagnir mælti fyrirmaðurinn við gest sinn: „Nú vænti ég að þér þyki mál komið að ég fylgi þér heim til þín; en hvernig hefur þér þótt að dvelja hjá mér?“ Hinn sagði sem var að honum þókti þar gott að koma og allt fara fram hið bezta. Þá mælti jarðbúinn: „Nú skal ég fylgja þér heim aftur, en svo þú getir sannað að þetta, er fyrir þig hefur borið, er meira en draumur þá skaltú hafa þetta með þér til jarðteikna því valla mun aðra eins síðu að fá í þinni sveit.“ Tók hann þá sauðarsíðu af borðinu og fékk honum og var hún mikið þykkri og feitari en þær er hann hafði áður séð, og stakk hann henni í kápu sína. Því næst kvaddi hinn ungi maður samsætisfélaga sína og fór svo leiðar sinnar og hélt í hönd félaga sínum; liðu þeir svo gegnum myrkurin þar til þeir komu upp á jörðina á sama stað og þeir fóru fyr niður; fóru þeir svo leiðar sinnar þar til þeir komu til rekkjunnar brúðhjónanna; kvaddi þá hinn aðkomni brúðguma með vinsemd og hvarf síðan, en hinn þóktist hátta í öðru sinni hjá konu sinni og vaknaði ekki fyr en um morguninn í faðmi hennar. Sagði hann þá frá hvað fyrir hann hafði borið um nóttina og sýndi sauðarsíðuna og fór hún víða til sýnis og sást hvergi önnur slík, svo var hún feit og þykk. Þókti þessi atburður allur saman vera hinn merkilegasti.