Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Danski kapteinninn

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Þegar Jónas Jónsson sá er síðast var prestur í Reykholti var prestur að Höfða í Höfðahverfi[1] var þar eitt sinn grafið lík í kirkjugarðinum. Fundu þeir sem grófu, kistu heila; var hún járnslegin og í lögun sem venjulegar danskar gamlar fatakistur og hafði hún verið förfuð utan. Sem þeir gjöra prest varan við fundinn gengur hann að og sér að svo er sem þeir segja. Skipar hann þeir brjóti kistuna og sem það var gjört sér hann að eins manns bein eru í kistunni og að maðurinn hefði verið tekinn sundur um mjaðmir og látinn svo í tveim hlutum í kistuna. Þykir honum þetta verið hafi venjubrigði og vill reyna að geta fengið vitneskju um hvað til bar og hver svo hafi þar grafinn verið. Tekur hann því rifbein úr kistunni og geymir þá grafið var. Þegar hann leggst til svefns um kvöldið lætur hann bein þetta undir höfuð sér og sem hann sofnar dreymir hann að maður kemur til hans. Er hann á litklæðum og tígugliga búinn; ávarpar hann prest á gamalli dönsku og biður hann skili sér beininu. Prestur þykist spyrja hver hann væri og hvernig á hefði staðið greftrun hans á þennan hátt. Þykir honum hann segja sér að hann verið hefði kaptein á skipi hingað frá Danmörku og dáið í hafi og hefðu skipverjar látið sig í fatakistu sína og flutt sig hingað upp og jarðað. Prestur þykist spyrja hvert ekki hafi fé verið lagt í jörð með honum. Þókti honum hann þá verða nokkuð kynlegur í bragði og mæla: „Ég gat nú dulið það fyrir ykkur.“ Síðan hvarf hann. En prestur stakk beininu í leiðið morguninn eftir.


  1. Jónas Jónsson (1773-1861) var prestur í Höfða 1803-1839.