Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Djöflalág á Reykjum

Úr Wikiheimild

Á Reykjum í Fnjóskadal sem er fremsti bær að vestanverðu við Fnjóská er svo háttað landslagi að umhverfis túnið nema að austan eru hólar sem ganga fast heim að því. Að sunnanverðu eru hólarnir hærri og ganga lengra fram en að norðan svo vel má sjá af þeim út á veginn er liggur heim að Reykjum á hinni svonefndu Reykjarönd. Suður frá bænum liggur vegurinn yfir túnið og upp á hólana þar sem dregur í dæld. Er sú dæld nefnd Kvíalaut, en hóllinn sem myndar hana að austan kallast Kofahóll. Fyrir framan alla þessa hóla tekur við snarbrött grasbrekka fast ofan að Fnjóská. Framan í þessari brekku liggur vegurinn og er það nefnt Reykjaklif. En milli þess og hólanna fyrir ofan veginn er djúp graslaut.

Fyrir mörgum árum þegar Jón Bjarnason bjó á Reykjum var þar húsmaður sem Jón hét. Höfðu menn fyrir satt að húsmaður kynni fleira en faðirvor; vóru hönum og gjörðar glettur þó mótstöðumenn hans séu ekki nefndir vegna þess þeir eru úr minni eða hverjar orsakir þar til vóru; má og vera að þeir hafi eins mikið gjört það til að reyna kunnáttu hans eins og fyrir miklar sakir. Snemma vetrar einn góðan veðurdag bar svo við að þeir nafnar fóru fram á dal. Hafði gengið góð tíð og fé bónda legið úti fram í Reykjafjalli. Var gengið til þess á daginn og njósnað um hvernig því liði og svo var í þetta sinn. Þegar þeir koma að framan ganga þeir upp á Reykjaklif; var vegurinn yfir klifið lítt fær því hálka og harðfenni var í götunni. Ganga þeir nú út klifið og heim á hólana og vóru staddir upp undan graslaut þeirri sem áður var nefnd. Var þá hallað degi. Sjá þeir þá hvar maður kemur utan Reykjarönd og er hann líkari trölli en mennskum manni. Gengur hann allhvatlega og stefnir að þeim nöfnum. Jón húsmaður segir þá við bónda: „Erindi mun þessi eiga við mig og mun ég hér eftir verða, en ganga skalt þú heim og bíða fram á dagsetur; en verði ég þá ekki kominn skaltu vita hvað mér líður.“ Síðan fór Jón húsmaður að rita í kringum sig með staf sínum, en bóndi gengur til bæjar. Var það jafnsnemma að bóndi er staddur í Kvíalautinni, en aðkomumaður gengur utan á Kofahólinn. Var hans vöxtur þá svo afskaplegur að bónda sýndist axlir hans bera jafnhátt og Bakkafjall. Líður svo fram á dagsetur að húsmaður kemur ekki heim. Fer bónda að lengja og vill vita hvað gerist með þeim aðkomumanni; hefur hann tekið sér vettlinga og er genginn út á hlað. Sér hann þá hvar ofboð lítill drengur hleypur út frá Hornhúsinu, út og fram á túninu, en húsmaður lötrar mæðulega sunnan hólana. Reis hann ekki úr rekkju þetta kveld og er svo fár að hann talar ekki orð. En laut sú er nefnd var og þeir áttust við í er enn í dag kölluð Djöflalág.

Eftir þennan atburð flutti Jón húsmaður sig fram að Tungu og er mælt hann hafi kennt þar manni nokkrum fjölkynngi sem hét Jón Þorláksson og nefndur var Jón veiki. En þau urðu ævilok Jóns húsmanns að eitt sinn meðan hann dvaldi í Tungu var hönum send fluga sem fór ofan í hann og varð það hans bani.

Ekki verður sagt með vissu á hvaða tíma Jón Bjarnason hefur búið á Reykjum, en það lætur nærri að það hafi verið ofarlega á 17. öld. Áður en hann giftist átti hann dóttir sem Guðrún hét; varð hún gömul og bjó lengi á Reykjum eftir föður sinn. Fyrri maður hennar hét Pétur; þeirra son var Jón faðir Bjarna föðurs Davíðs á Reykjum. Hafa þeir feðgar hver fram af öðrum búið þar og er framanskrifuð frásögn tekin eftir munnmælum sem fylgt hefur þeirri ætt.