Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Draugar, vofur, sendingar, uppvakningar
Draugar, vofur, sendingar, uppvakningar
Svipur er eftir hvern dauðan mann er líkist honum. Segja sumir að hann sé sama og fylgja lifanda manns; þó er það ólíklegra því þær eru margbreyttar að sögn allra skyggnra manna og eins og ráða má af aðsóknum í draumum. Fylgja góðra manna er ljós og eins þegar móðurfylgja manns er brennd, því þá leggjast ættarfylgjur frá. Þeim sem eru komnir af óhræsisættum fylgja helzt auðvirðileg kvikindi, kettir, völskur og mýs. Sumum ættum fylgja draugar þegar einhver í ættinni hafði með harðýðgi valdið dauða manns; þó leggjast þeir helzt að einum í senn eins og Sviðholtsdraugurinn er ætíð ollir einhverjum veikinda og bana í ættinni, og Írafellsmóri er fylgir hinum efnaðasta í ættinni og lætur hann fæða sig og klæða, en brýtur allt og skemmir fyrir honum. Finni maður – þar sem ekki er orsök til þess – líka lykt og af súru smjöri þá er fylgja í nánd (fylgjulykt). Á þá til varúðar að skyrpa og sveia, því þá hrökkur fylgjan frá sé hún vond. Horfi óskyggn maður undir vinstri hönd skyggnum manni verður hann skyggn á meðan.
Afturganga verður maður að vilja sjálfs síns, t. a. m. þegar maður heitast við annan og deyr svo og sækir að honum á eftir. Sendingar og uppvakningar eru annaðhvort svo að eitt bein eða limur af manni er magnaður eða þá allur líkaminn. Þeir uppvakningar eru verri viðureignar, en allra verstir sé líkaminn magnaður volgur.