Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Draugur gengur að verkum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Draugur gengur að verkum

Einu sinni voru nýgift hjón á Vestfjörðum sem unntust mikið. Maðurinn stundaði fiskirí og var duglegur sjómaður. Einn morgun þótti konu hans líta veðurlega út og bað bónda sinn að róa ekki, – „því það mun drukkna hvurt það skip sem rær í dag.“ Hann sagðist mundi fara hvurju sem hún spáði. Hún sagði hann mundi þá ekki koma aftur. „Jú,“ sagði hann, „aftur kem ég til þín í kvöld.“ „Nei,“ sagði hún, „ef þú rær kemur þú ekki aftur.“ „Það skal ske,“ segir hann, „ég skal aftur koma, þú mátt reiða þig á það.“

Síðan réri hann, og fór svo sem hún hafði sagt að hvessti um daginn svo öll skip drukknuðu sem róið höfðu, og hann líka. Um kvöldið kom hann heim votur í skinnklæðum og lagðist í rúmið sitt og talaði ekki orð. Konan háttaði um kvöldið og fór hann ekki upp í hjá henni, en var á rölti um nóttina. Daginn eftir gekk hann að vinnu sinni og svo upp frá því. Vann hann meir en tveggja manna verk við heyskap um sumarið, en var garðmaður veturinn eftir, og tjáði ekki öðrum að skipta sér af því. Allir sem sjón höfðu sáu hann, en aldrei talaði hann orð.

Nú bað ekkjunnar ungur maður og tók hún því vel. Hann fór þangað um vorið. En fáum nóttum seinna fannst hann dauður allur sundur rifinn.

Síðan hvarf afturgangan og sást ekki um sumarið, en kom aftur um haustið og var í garðinum um veturinn. Þetta gekk í þrjú ár. Hvurki grandaði hann mönnum né skepnum nema þessum eina manni. Fólki leiddist samt yfirgangur hans og var fenginn maður sem haldið var að kynni fleira en aðrir til að koma honum fyrir og gjörði hann það svo ekki varð vart við afturgöngu hans upp frá því. Eftir það giftist ekkjan og gekk henni hamingjusamlega til dauðadags.