Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Draugur getur son

Úr Wikiheimild

Einu sinni er sagt að maður nokkur hafi lagt hug á prestsdóttur nokkra, en gat með engu móti fengið hennar hvort sem það var nú henni að kenna eða foreldrum hennar. Heitaðist hann þá við að njóta samfara við hana dauður fyrst hann gæti það ekki lifandi. Litlu síðar dó hann af gremju og hugstríði. Var hann jarðaður þar á staðnum sem prestsdóttir var. Þetta var eftir sumarmál.

Unglingur um tvítugsaldur vakti yfir velli á prestssetrinu. Sá hann það einhverja nótt að maður í líkklæðum skauzt úr kirkjugarðinum inn í bæinn. Pilturinn litaðist þá um í kirkjugarðinum og sá að gröf manns þessa var opin og var hún auðþekkt því þetta var nýjasta gröfin í garðinum. Pilturinn hafði heyrt ávæning af hvernig á stóð. Hafði hann hjá sér prjóna, knýtti að hnyklinum svo honum yrði kippt að sér á bandinu og lét hann svo falla í gröfina. Innan skamms kom afturgangan og gat ekki náð gröfinni. Kvaðst pilturinn ekki leyfa það nema hann segði sér allt er hann spyrði að og hlaut þá svo að vera. Afturgangan kvaðst vera komin frá prestsdóttur og hafa komið fram vilja sínum við hana sofandi, og væri hún barnshafandi og mundi eiga son er yrði prestur, en í fyrsta sinn sem hann snéri sér fram fyrir altari og heyrði svarið: Og með þínum anda, – myndi kirkjan sökkva nema ef einhver væri svo hugaður að hann ræki prestinn gegn þegar hann snéri sér fram. Síðan leyfði pilturinn vofunni gröfina og kippti hnyklinum upp. Á réttum tíma frá þessu ól prestsdóttir sveinbarn og gat ekki feðrað. Þegar barnið vóx upp varð það námsmaður mikill svo drengurinn var settur í skóla og lauk sér þar af bæði fljótt og vel. Vígðist hann til prests þegar hann hafði aldur til. Var piltur sá er fyrr er getið þá einhver hinn helzti bóndi í sókninni. Hafði hann aldrei getið þess við neinn er fyrir hann bar forðum. Dag þann er hinn nýi prestur átti að embætta fyrst sat bóndi á lausabekk nálægt grátum, og þegar prestur snéri sér fram stóð bóndi upp, greip kníf undan mussu sinni og lagði fyrir brjóst presti. Öllum féllust höndur við þetta tilræði. Bóndi bað menn athuga messuklæðin er lágu í hrúgu fyrir altarinu, og fannst ekkert í þeim nema herðarblað og þrír blóðdropar er vættur þessi hafði af móður sinni. Sagði bóndi söfnuðinum þá upp alla söguna. Þökkuðu allir honum verkið og þökkuðu guði að ekki hlauzt verra af.