Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Draugur tekur ofan

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Draugur tekur ofan

Maður nokkur gekk eitt sinn með sjó síðla um kvöld. Kom þá að honum sjóvotur draugur og gekk svo inn á hann að maðurinn átti ekki annars úrkosti en hörfa undan út í flæðarmál og óð hann þar. Sá maðurinn að ekki var til góðs að gjöra. Lagði hann þá til draugsins í bræði með broddstaf sínum. Hopaði hinn þá undan svo maðurinn komst upp. En ekki var hann langt kominn fyrr en hann mætti manni. Tók hann þá ofan og heilsaði og ætlaði að spyrja til vegar því hann vissi óglöggt hvar hann fór. En hinn tók aftur ofan allt saman, hatt og höfuð. Maðurinn brá þá staf sínum milli háls og höfuðs svo draugurinn kom því ekki á sig aftur og hringsnérist þar sem hann var kominn, en maðurinn áttaði sig og komst heim.

Sama er um galdramenn sem drauga að sýnist þeir taka höfuðið af sér koma þeir því ekki á sig aftur ef einhverju er brugðið yfir strjúpann.[1]


  1. Það verður ekki séð hvort þessi draugur er uppvakningur eða afturganga og ætti þá sagan inn í fyrri greinina ef svo væri.