Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Draugur veitir áverka

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Draugur veitir áverka

Jón hét maður, hann var Sigfússon og er nú andaður fyrir hér um bll 30 árum; var hann bóndi í Reykhólasveit og bjó þar síðast er á Kambi heitir. Hann var lágur vexti, en riðvaxinn, hraustur og harðgjör og hin mesti fjörmaður. Þessi Jón sagði frá því að þegar hann var á tvítugsaldri vinnumaður á Kollabúðum hjá bónda þar er Sigfús hét bar svo við vortíma nokkurn að Sigfúsi þessum varð sundurorða við arnfirzkan mann; er eigi getið hvað hann hét. Lenti í heitingum með þeim og hét Arnfirðingur að senda honum sendingu er taka skyldi hefnd fyrir sig. Skildu þeir við það.

Snemma hinn næsta vetur brá svo við á bænum að gripir tóku að hrynja niður með ýmsum undarlegum hætti svo að engum þótti sjálfrátt og allir þeir er vissu um sendinguna eignuðu það þegar henni enda þorði bóndi hvergi að vera einn. Fór nú svo fram um hríð. Eitt kvöld er dimmt var orðið var Jón þessi Sigfússon að gefa lömbum úti í heygarði; var hann genginn inn í geilarbotn og leysti; verður honum þá litið utar eftir geilinni og þykist hann sjá flygsu nokkra færast að sér, og óðar er þrifið til hans mjög óþyrmilega svo að hann hrökk fyrir. En með því Jón var óbilgjarn og einbeittur réðst hann á móti og kvaðst hann lengi hafa þreytt áflog við ófögnuð þenna. Þótti honum það vera í mannsmynd, þó mjög einkennilegt; vildi draugur ekki taka tökum, heldur hrifsaði hann og reif æ sem tíðast og var svo harðleikinn að hold gekk frá beini þar sem hann náði svo til. Loksins segist Jón hafa komið draug þessum undir og hnigið við það sjálfur í ómegin. Fann Sigfús bóndi hann þar í geilinni í óviti og var hann allur blár og blóðrisa; var hann svo borinn heim og lá lengi eftir. Þegar Jón var orðinn frískur sagði hann mönnum frá sögu þessari enda hafði hann nokkuð til sannindamerkis; var það það að hold með skinni milli þumalfingurs og vísifingurs á hægri hendinni var numið burt frá beini og fylltist skarð það aldrei síðan með hold. Við drauginn urðu menn síðan eigi varir.