Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Draugurinn á Snæfjöllum
Draugurinn á Snæfjöllum
Prestur bjó á Snæfjöllum á 16. öld. Hann átti son er Jón hét er hann bað að vitja smalamanns á Þorláksmessu undir Núpi, fjalli einu skammt frá Snæfjöllum. Sveinninn fór nauðugur og kom ei lifandi aftur, en daginn eftir kom hann afturgenginn heim að Snæfjöllum, talaði við heimamenn og át sjóföng úr hjalli föður síns. Ekki er þess getið að hann hafi orðið mönnum [að meini], en ljósum logum gekk hann um héraðið. En svo mikil brögð urðu að afturgöngu hans að einhverjir kunnáttumenn stefndu honum til Einars prófasts Sigurðssonar sem þá var í Heydölum í Breiðdal, til að fyrirkoma eða deyfa draug þenna. En draugurinn kom að prófasti þegar hann var illa viðbúinn að beita brögðum við hann, en þó gat síra Einar brotið í honum báða handleggi og deyft hann svo að hann ei gjörði slíkar óspektir sem fyr. En af því prófasti þótti kynleg sendingin vísaði hann honum til baka og kvað hann verða mundu óskaðvænni þaðan af. En svo öldum skipti sást svipur draugsins og seint á 18. öld þóttust menn sjá hann um jólin, en ekki varð mein að honum því þegar Guðlaugur prófastur Sveinsson var í Vatnsfirði[1] og hélt kvöldsöng eitt sinn á jólanótt varð barnfóstra hans vör við Snæfjalladraug þenna, en vísaði honum frá sér.
- ↑ Guðlaugur Sveinsson (1731-1807) var prestur á Stað á Snæfjallaströnd 1756-1766.