Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Draugurinn Hundi

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Draugurinn Hundi

Maður hét Gunnlaugur, kallaður hundi, lítt að manni, húskarl Árna prests Skaftasonar [1717-1770] á Sauðanesi á Langanesi norður. Gunnlaugur vildi eiga konu þá er Málmfríður hét og leitaði giftumála við hana, en þá beiddi hennar sá maður er Eymundur hét, allröskur, og fékk hennar og fóru þau að búa á Skálum, yzta bæ á Langanesi. Gunnlaugur hundi hézt nú við Málmfríði og var það nú eitt kvöld í myrkri að ráðakona Árna prests er Ingiríður hét Kristjánsdóttir, prests er var á Mælifelli í Skagafirði, gekk til fjóss og meystelpa með henni er Kristín hét og upp hafði alizt með Árna presti. En er þær komu í fjósið heyrðu þær korr og snörl mikið í auðabási. Ingiríður mælti: „Ekki er allt sem dreymir. Ber þig að kveikja, Kristín litla, ég ætla að bíða hérna á meðan.“ En er Kristín kom með ljósið sáu þær að Gunnlaugur lá þar skorinn á háls og knífurinn hjá honum, gæruhnífur allbeittur. Hljóp Kristín þá inn og bað húskarl þann er Ormar hét Sigurðsson, er var á vist með Árna presti, að koma út í fjósið. Eymundur á Skálum maður Málmfríðar var þar gestkominn og ætlaði að gista þar um nóttina; var hann frændi Ormars. Fóru þeir til að færa Hunda í skemmu og er mælt hann tæki þegar aftur að ganga. Sást þá þegar blóðlifur mikil á klæðum Eymundar er á hann hafði komið er hann bar Hunda í skemmuna. – Ormar var maður atall og einarður, greip hann lifrina og sletti í augu Hunda; var því síðan trúað að það yrði síðan orsök þess að eigi fylgdi hann Ormari né afkomendum hans þó einnar ættar væri hann Eymundi. Því trúðu og margir að Hundi sletti sjálfur blóðinu á Eymund og vildi með því lýsa vígi sinu á hendur honum ella morði. – En þegar tók hann að sækja að konu Eymundar og fylgja honum sjálfum svo kallað var hann yrði að ættarfylgju er lengi hélzt við.

Sonur Eymundar og Málmfríðar hét Eymundur er faðir var Eymundar þess er bjó á Fagranesi á Langanesi fram yfir daga Stefáns prests Einarssonar á Sauðanesi [d. 1847]. Þar vóru og tvær systur þessa síðasta Eymundar giftar á nesinu, Helga og Þórdís, og þótti þá enn sem eimdi eftir af Hunda með ætt þeirri. Synir Ormars voru og nyrðra, Ari og Árni.