Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Draugurinn og smalinn
Draugurinn og smalinn
Einu sinni var maður sem var smali; hann kom einu sinni heim frá smalamennsku og gekk inn í bæ; þar var eitt horn þegar inn var gengið. Bóndi var ekki heima. Smalamaður gekk inn og sagði við konuna: „Ég heyrði pú í horninu, mikið óttalegt.“ Hún gegndi því ekki. Síðan gekk hún fram seinna og heyrði það sama; hún varð mikið hrædd og þorði enginn fram að ganga. Smali gekk fram. Þegar hann var kominn fram fyrir hornið kemur hauslaus maður á ettir honum; hann veik sér við. „Hvur er þarna?“ segir smali. Hinn sagði: „Gefðu ekki um það,“ og tók í hálsinn á smala og fleygði honum undir sig. Hann kallaði til fólksins og beiddi það um að hjálpa sér, en þegar það kom fram hvarf draugur. Smalamaður sagðist skyldi launa honum það; konan sagði honum að vera ekki að þessu „því það getur drepið þig“. Um morguninn fór smali að smala, þá mætti hann því aftur. Hann kross[að]i á bæði bak og brjóst á sig og kall[að]i til þess og spurði: „Hvurt er þú að fara?“ Það gegndi ekki. Síðan lagði það til hans krókstjaka, hann sló með stafnum sínum úr hendinni á því, þá hljóp það á hann og glíma þeir, og smali fellir það og veltir því um og krossar á bak og brjóst á því so það verður máttlaust. „Hvað geturðu nú gjört?“ svaraði smalinn, en það gegndi ekki. Nú dysjaði hann það og gerði kross á vörðuna; síðan fór hann heim. En um nóttina sváfu hjá honum tveir drengir og gat hann ekki sofið fyrir missýningum og seinast sá hann að eitthvað teygðist upp í rúmið, en hann sló í það so það fór. Fáum dögum eftir var hann að láta inn féð um kvöld, en það vildi ekki ganga inn so honum mistaldist og fór inn, en þá sá hann eitthvurt óræsti og gat ekki farið inn nema beygja sig undir hendurnar á því með staur, en það lét ekki undan so hann kippir í hendurnar á því so hann varð máttlaus. Og so var hann vitlaus þegar fólkið kom, en honum batnaði attur.