Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Dreptu þann sem sendi þig

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Einu sinni mætti maður draug – einhverri skottu – á Eyjafjarðarbökkum; hann spyr hana hvern fjandann hún sé að gjöra inn í Eyjafjörð. Hún segir það, nefnir mann fram í firði sem hún eigi að drepa. „Ertu vitlaus?“ segir maðurinn, „hann er dauður, farðu strax til baka og dreptu þann sem sendi þig.“ Hún trúði þessu, sneri aftur og gerði sem henni var sagt, en hinn lifði lengi sem hún átti að finna, og var þetta hrekkur þess sem mætti henni, að skrökva hann dauðan.