Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Eiða-Sezelía

Úr Wikiheimild

Á dögum Brynjólfs biskups í Skálholti bar svo til að þangað kom kelling að nafni Sezelja; hún var að fá sér ölmusu og beiddist þar gistingar og dvaldi hún þar nokkra daga. Skólapiltar höfðu í brösum við kellinguna og gjörðu henni margt misjafnt til; hét sá Eiríkur sem mest gekkst fyrir þessu. En sem kelling atlar þaðan burt og búið er að leggja reiðfæri á hryssu hennar fær Eiríkur sér ýsudálk og lætur hann undir taglið á hrossinu, en sem kelling heldur úr hlaðinu í Skálholti verður merin ær og óð og flýgur um allt túnið aftur og fram þar til kelling fellur af baki. Varð fallið svo mikið að kelling var þar nærri dauð. Skildu menn það samt af orðum hennar að hún lýsti Eirík banamann sinn og kvaðst mundi hefna sín dauð á honum þar hún gæti það ei lifandi. Eftir það dó hún og gekk bráðum aftur og sótti að Eiríki. Bað hann þá biskup ásjár og fékk hann honum varnir nokkrar svo það dugði.

Eftir það flýtti biskup fyrir skólalærdómi Eiríks og veitti honum síðan Eiða austur í Fljótsdalshéraði; varð hann þar prestur, en ekki leið langt um áður Setta kelling fór að ásækja hann svo honum varð ei viðvært. Sendi hann þá til Brynjólfs biskups og lét hann vita þetta. Sendir biskup honum þá nývígðan stúdent sem Ketill hét, og bað segja Eiríki að afturgangan mundi ei saka hann meðan hann hefði Ketil. Fer hann síðan vistum til séra Eiríks og var þar tvö ár og bar aldrei á afturgöngunni. En Eiríkur prestur var naumur á mat og annað við Ketil. Tók hann því það ráð að byggja Katli næsta bæ við sig sem Snjóholt heitir og þóttist mundi geta haft sömu not af honum sem áður, en jafnskjótt sem Ketill var burtu fór afturgangan að ásækja prest; lét hann því ætíð hest vera í túninu svo fljótt yrði að sækja Ketil. En svo bar til á sunnudagsmorgun þriðja sumarið að prestur lá í sæng sinni. Kom þá Setta þar inn og réðst á hann; var þá strax riðið inn að Snjóholti efrir Katli sem þá stóð úti albúinn þegar sendimaður kom, og kvað nú mundi of seint að hjálpa presti. Samt fór hann strax og reið mikið allt út í Borgarhólinn framan undir Eiðabænum; þar sprakk hesturinn, en Ketill hljóp heim á hlaðið og að dyrum. Þar mætir afturgangan honum og er froða í greipum hennar; hún var þá búin að hengja prest. En er Ketill sá hana er mælt hann hafi sagt: „Það er hið fyrsta sinn að ég hefi séð þig fjandi.“ Eftir það rak hann hana undan sér inn í eldhúshornið á Eiðum og sökkti henni þar niður; hefur hún aldrei síðan sézt. En Ketill varð eftir þetta prestur á Eiðum og er margt manna frá honum komið.[1]

  1. Eiríkur Guðmundsson (1704-1740) var prestur á Eiðum 1730-1739. Ketill Bjarnason (1707-1744) var aðstoðarprestur hans 1737-'39, fékk kallið eftir daga Eiríks og hélt til dauðadags. En Brynjólfur biskup dó 1675.