Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Einar í Hlöðuvík

Úr Wikiheimild

Einar hefur maður heitið sem var einsetumaður í Hlöðuvík á Ströndum og andaðist þar. Löngu eftir dauða hans kom maður að Hlöðuvík og barði til dyra. Einar kom ekki til dyra. Þá fer maðurinn upp á gluggann og guðar. Honum er ekki svarað öðru en þessu:

„Almyglaðan sperrir fót
upp í rót,
en annan ofan á fjalamót.“

Þá fer maðurinn að bæjardyrunum aftur og finnur að bærinn er lokaður. Brýtur hann þá upp bæinn, gengur inn og sér Einar eins á sig kominn og hann heyrði kveðið inni; samt var maðurinn þar um nóttina. En daginn eftir fór hann að sækja menn til að koma Einari í kirkju. En þegar þeir vóru komnir eina dagleið heyrðu þeir að sagt var í kistunni:

„Heim á pall í Hlöðuvík
hafið mig, piltar góðir!“[1]

En þegar þeir tóku upp kistuna fundu þeir líkið var burt. Snéru þeir til Hlöðuvíkur og þá var Einar þar kominn. Það fór eins í annað sinn, en í þriðja sinn létu þeir rúðukross á kistuna. Þá kómust þeir í kirkjuna. En illa gekk að koma Einari í gröfina, því sagt er að presturinn hafi óviljandi rotað einn líkmanninn með kirkjujárninu áður en Einar varð jarðaður.

  1. Seinna viðbætt:
    anzaði kallsins andað lík,
    allar heyrðu þjóðir. – [Hdr.]