Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Eiríkur góði á Ljótsstöðum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Eiríkur góði á Ljótsstöðum

Um miðja 18. öld og þar á eftir bjuggu hér þrjár systur sem almennt vóru kallaðar Ljótsstaðasystur. Þóttu þær á þeim tímum kvenskörungar miklir; höfðu þær félagsbú. Eigi man ég nöfn þeirra nema ein þeirra hét Ingibjörg; sú giftist síra Þorvarði sem þá var prestur á Kvíabekk.[1] Nokkru seinna kom hann að Ljótsstöðum til að heimta heimanmund konu sinnar eður hennar hluta að tiltölu úr félagsbúi þeirra systra. Sóktist honum eigi vel því þær er fyrir vóru vildu ekki greiða og báru honum á brýn að hann væri afgæður konu sinni, systir þeirra. Þessu reiddist Þorvarður prestur og hafði í heitingum. Sú er meiri var kvenskörungurinn rak honum þegar hnefahögg svo blóð féll úr nösum honum, og sagði um leið: „ Gjörðu mér nú gjörninga, bölvaður.“ Átti hann þá að hafa mælt: „Launa skal samt hnefahöggið.“ Hinni systirinni brá svo við eftir þetta að henni sýndist allur matur fullur með orma og var upp frá því mjög bág til geðsmuna. Leið svo nokkur tími.

Litlu seinna bar svo við að piltur nær tvítugu er átti heima að Gunnólfsá í Ólafsfirði drukknaði þar í ánni sem ber sama nafn. Hafði hann haft þann vana þegar hann rak kýrnar að sitja á einni þeirra yfir ána og fórst við það tækifæri. Bar síra Þorvarð þar að er hann kom neðan frá sjó og ætlaði heim til sín. Er mælt að drengurinn muni ekki með öllu hafa dauður verið, en prestur hafi magnað hann og sent Ljótsstaðasystrum í hefndarskyni.

Þegar nú Eiríkur sem þá fékk viðurnefni góði kom að Ljótsstöðum er verið mun hafa nálægt 1760, var það hið fyrsta starf hans að hann drap 40 ær í svonefndu Stórhúsi; þess utan drap hann eina kú og meiddi aðrar skepnur til stórskemmda svo þær systur urðu nær því öreigar að gangandi fé. Reynt var ári síðar að láta kindur í hið áðurnefnda hús, en allt fór á sömu leið; var það því með öllu af lagt.

Önnur stórvirki gjörði og Eiríkur góði á bæjum hér umhverfis, svo sem í Hólakoti tróð hann stúlku, sem var að þvo aska, tvöfaldri í gættina milli stafs og veggjar, stórgripi út um hagann drap hann og meiddi meir eður minna og eigi var uggvænt um að hann á stundum vildi ráðast á menn þótt ei sé þess getið að sögulegt hafi af orðið utan þetta eina skipti. Fram um lok 18. aldar var Eiríkur góði í fullu fjöri að mestu er menn svo kalla og gekk svo í berhögg að næstum hver maður sá hann hér í byggðarlagi. Á vetrum var hann á gráum frakka. Reiðskjóti hans var grár; sat hann alla jafna rangsælis og þá svellalög vóru og Grána tók að skrefa fótur stökk hann af baki og hrækti í hófana; stóð þá Gráni sem nýjárnaður væri; þótti mörgum gaman að sjá ferðalag hans og kringilæti.

Þannig sagði söguna Arngrímur, afi síra Steffáns Árnasonar sem nú er á Kvíabekk í Ólafsfirði; var hann um mörg ár ráðamaður hjá þeim systrum og bjó eftir þær hér þangað til 1804 að afi minn flutti hingað búferlum. Afi minn var maður einbeittur og lagði lítinn trúnað á þess háttar; byggði hann því strax upp aftur hið áðurnefnda Stórhús og sagði að Eiríkur góði mundi naumast glettast til við sig enda var það og lítið, en samt fór svo að þrjá fyrstu veturnar sem hann brúkaði húsið dó ein kind á hverjum vetri; vóru skrokkarnir bæði bláir, marðir og beinbrotnir.

Síðan hefur hann engan skaða gjört, hverki í því húsi né annarstaðar, enda sagði afi minn að hann mundi þá hafa verið farinn að dofna, en svip hans hefði hann séð allt fram að 1840, og menn sem enn eru lifandi hafa séð hann til skamms tíma. Nú ber ekkert á honum að öðru leyti en því að bæði mér og öðrum hér á heimili er hægt að segja að morgni að einhver komi frá þeim og þeim bæ hér í grenndinni sem fólk á að rekja ætt sína til Ljótsstaðasystra.

  1. Þorvarður Bárðarson (um 1690-1767) var prestur á Kvíabekk 1725-1754, þríkvæntur. Fyrsta kona hans var Ólöf Magnúsdóttir á Ljótsstöðum á Höfðaströnd Jónssonar. Hin síðasta hét Ingibjörg Magnúsdóttir, húnvetnsk að ætt, og virðist hafa verið óskyld hinni fyrstu.