Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Eyjafjarðar-Skotta

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Eyjafjarðar-Skotta

Hér skal nú geta sagna þeirra er til eru frá Eyjafjarðar-Skottu þessari.

Það er sagt að Hollendingar nokkrir hlypi á land í Vöðluþingi og væri alldjarftækir til kvenna, en þær yrði ei örþrifráða, og smáði ein þeirra þá með missýningum er þeim gremdist svo mjög að þá þeir færi aftur utan keypti þeir af galdramanni að senda til Íslands kvendraug; skyldi hann drepa og kvelja konur allar í Vöðluþingi og er sagt að fyrst kæmi hann á land í Sauðanesi á Upsaströnd; þar bjó þá Þorvaldur skáld Rögnvaldsson, margfróður maður. – Þó hafa sumir heyrt þar byggi þá Þorvaldur gamli Magnússon er ei allstuttu bjó þar fyrri, en báðir kallaðir ákvæðaskáld og fjölfróðir; telja þó fleiri Þorvald Rögnvaldsson verið hafa.

Þorvaldur var við sjó niður er hann sá til draugs þessa, en Hollendingar veiddu þar úti fyrir. Var þetta kona á útlendum búnaði með rauða skotthúfu og handleggir berir að ölnboga. Þorvaldur kvað til hennar og spurði hver var og hvert væri örendi hennar Hún lézt flæmsk (aðrir segja finnsk) og eiga kvelja ella drepa konur allar í Eyjafirði, en svo var hún mögnuð að Þorvaldur fékk ei með öllu við hana ráðið; varð hann að leyfa henni að drepa hina beztu kú sína, þar með að drepa kýr á þriðja hverjum bæ í Eyjafirði og sýna aðrar glettingar körlum og fénaði, en heft fékk hann hana með öllu frá því að sækja að konum sem örendi hennar var.

Draugur þessi var kallaður Eyjafjarðar-Skotta; drap hún margar kýr um Eyjafjörð og var uppi lengi síðan með ýmsum glettingum.

Miklu fleiri Skottur hafa verið til sem ég hef ekki enn náð í sögur af, t. d. Rauðasands-Skotta í Barðastrandarsýslu, Kringhvers-Skotta í Skagafirði, Húsavíkur-Skotta og Hlíðar- (Reykjahlíðar-) Skotta í Þingeyjarsýslu og Víkur-Skotta í Múlasýslu kennd við Vík í Fáskrúðsfirði, og ef til vill enn miklu fleiri sem ég hef aldrei heyrt nefndar.