Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Fáðu mér höfuðskelina mína, Gunna

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Á kirkjustað einum var kerling nokkur sem Guðrún hét. Einu sinni þá lík var grafið verður henni reikað að gröfinni. Sér hún þar brot af höfuðkúpu; hún tekur brotið svo enginn vissi og hefur inn með sér. Þetta var um háskammdegi. Um kveldið þegar búið er að kveikja ljós í baðstofu lætur kelling lýsi og kveik í skelina, kveikir á og setur upp hjá rúmi sínu; var rúmið móti baðstofudyrum. Er hún þar að staga að görmum sínum; þykir henni vænt um skelina því áður gat hún ekki kveikt hjá sér. Líður nú langt á vöku um kveldið og er minnst varði heyrir fólkið einhver óvænt læti fram í bænum og ávæning einhvers hljóðs. Litlu síðar gætir þessa meira og þá heyrir það að sagt er í miðjum göngum með grimmri og dimmri rödd: „Fáðu mér höfuðskelina mína, Gunna.“ Fólk varð hrætt í baðstofunni og litast um; sér það skelina hjá kellingu og deilir á hana fyrir töku hennar. Kelling brá sér ekki við, en rétt í þessu bylur högg svo mikið á baðstofuhurðina að við broti lá og ógurlig rödd heyrist sem segir: „Fáðu mér höfuðskelina mína, Gunna.“ Verður Gunnu þá ósvipt við og kastar skelinni með lýsinu og kveiknum í baðstofuhurðina og segir: „Farðu til fjandans með hana!“ Hætti þá reimleikinn, en skelin hvarf.