Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Fjandinn í hrossleggnum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Fjandinn í hrossleggnum

Prestur var á Völlum í Svarfaðardal; hann eignaðist dóttur prests síra Jóns Sveinssonar á Barði í Fljótum. Annar maður vildi og eiga sömu stúlku sem af mannvonzku uppvakti draug sem drap bæði hjónin, en Barðspresturinn náði barninu sem stúlka var hvar af mikill ættleggur er kominn, en kom svo fyrir þessum uppvakning að enginn vissi hvað af honum varð. Leið svo hér frá hér um mannsaldur eður áttatíu ár að einn vetur var tekin gröf að barni fyrir framan kórdyr sem prestur átti á Barði. Nær hún var fulltekin kemur þar upp einasta einn langleggur úr hesti og var tappi settur í annan endann. Sumir vildu, en sumir ei, af þeim sem gröfina tóku taka úr tappann og vita hvað í leggnum væri. Varð það af að þeir fyrri réðu. En þá þeir tóku úr tappann flaug þar út úr ógnarleg fluga. En strax þar á eftir sást, þá húmaði, um ganga stelpa í dönskum búnaði sem sama kvöld drap hestinn prestsins og þar eftir, að sagt var, þrettán manns hvar með voru þeir sem losuðu um tappann, item ýmsan kvikfénað þar í Fljótunum. Þó deyfðist svo þessi andi svo að ári liðnu eður nokkuð meira að hann kunni engum svo stórt grand að gera; kom þó undan hverjum þeim sem fór fram í Skagafjörðinn úr þeirri kirkjusókn og gerði ýmsar skráveifur. Skeði svo og einnin þá þessi fjandi sótti að mér, kom til mín maður úr Fljótum. Að nokkrum árum fráliðnum hvarf hún að öllu leyti.

Guð varðveiti öll sín börn.