Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Frá Jóni og Arnþóri

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Frá Jóni og Arnþóri

Bændur voru tveir í Mývatnssveit, Jón og Arnþór. Mikill fjandskapur var þeirra á millum. Báðir voru þeir mjög fjölkunnugir og sendust sendingum á; var Arnþór þeirra meiri. Eitt sinn er þess getið að Arnþór sendi Jóni draug. Jón sá ferð draugsins og villti hann svo að hann réði á bæjarstjakann og hamaðist svo að honum. Jón kom út og að máli við drauginn og spyr hver hann sé og hvert hann skuli. Hann kvaðst eiga að drepa Jón, en vera frá Arnþóri. Eftir það bindur Jón hann við stjakann og kveður hann aldrei skyldu fara þaðan nema ef hann vill drepa Arnþór. Draugurinn heitir því. Eftir það tekur Jón keraldshlemm stóran og fyllir mannasauri og öðrum óhreinindum og biður hann færa Arnþóri. Síðan fer draugurinn heim á leið og finnur Arnþór úti og steypir þegar af hlemmnum ofan yfir hann og kvað Jón honum það sent hafa. Síðan ráða þeir saman og stígur Arnþór yfir drauginn.

Um vorið fyrir páska kom förukona til Arnþórs og beiddi hann vistar um páskana. Arnþór kvaðst það leyfa mundu ef hún vildi gjöra eina bæn sína. Hún heitir því. Á páskadag kallar Arnþór hana út með sér og fer með hana á klöpp eina og biður hana steypa sér af ofan og kveðst hana þegar mundu upp draga og launa henni góðu. Hún gjörir svo og drukknar þegar. Síðan dregur hann hana upp og gjörir úr draug og magnar hann mjög og sendir Jóni. Hún kom þangað að nóni og var Jón einn inni og brýtur hún hann á hak aftur yfir þröskuldinn. Í því bili kom kona hans inn og tekur að veita honum nábjargir; en þá kemur draugurinn á gluggann og spyr hvað hann skuli. „Fylg þú Arnþóri,“ segir hún. Síðan sótti draugurinn á Arnþór og ætt hans og banaði tveim konum. en varð loks bundinn.