Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Galdramenn á Vestfjörðum

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Galdramenn á Vestfjörðum

Það voru einu sinni tólf (eða átján) galdramenn á Vestfjörðum sem sórust í fóstbræðralag að styrkja hvur annan og skilja aldrei, en ef nokkur sliti félagið skyldu hinir senda honum sendingu. Þeir fóru allir á alþing eitt sumar. Þar var kominn prestur austan af Austfjörðum og dóttir hans með honum. Einn af galdramönnunum fékk ást á prestsdóttur og bað hennar. Faðir hennar sagði hún skyldi ráða því sjálf, en hún sagðist ekki vilja hann nema hann færi austur með sér og léti ekki hótanir hinna hræða sig. Það ráð tók hann, fór austur með þeim presti og dóttur hans og giftist henni um haustið.

Líður svo fram til jóla. Þá fór maðurinn að ógleðjast. Kona hans spurði hvað til þess kæmi. Hann sagði að félagar sínir væru að útbúa sendingu sem þeir ætluðu að senda sér um jólin. „Það er til nokkurs fyrir ykkur,“ segir hún, „að vera að læra þessa vitleysu sem þið kallið galdur, þegar ekki er svo mikið að þið getið varizt fyrir einni sendingu.“ „Það er ekki von,“ sagði hann, „að ég einn treysti mér móti svo mörgum.“ „Ég er ekki galdramaður,“ segir hún, „og treysti ég mér til að verjast fyrir einni sendingu.“ Nú leið þar til hann sagði að sendingin væri komin á veg. Þá kallar konan á manninn með sér út fyrir túnjaðar. Þar kippir hún upp hrísrunni og er þar hola fyrir. Þá tekur hún bók upp úr vasa sínum og lýkur upp, lætur síðan manninn standa öðrum megin við holuna, en hún stóð sjálf öðrum megin, og svo héldu þau bæði í bókina opna og létu hana horfa móti vestri. Vonum bráðar kemur sendingin. Það var í mannslíki og kom með miklum hraða beint að þeim. Þetta stefnir milli þeirra og lendir á bókinni og fellur svo máttlaust ofan í holuna. Konan lét runninn yfir aftur og fóru þau svo heim og varð ekki vart við sendinguna framar.

Vorið eftir fóru þau að búa og riðu á alþing um sumarið. Þar fann maðurinn félaga sína og undruðust þeir þegar þeir sáu að hann var á lífi, og spurðu hvort hann hefði ekki fengið sendingu. Hann sagði það ætti að heita og mundi hann ekki hræðast annað eins. Þeir sögðu hann mundi eiga eitthvað meira undir sér en þeir vissu. Hann lét rýmilega yfir því. Svo lauk að þeir sættust við hann heilum sáttum og gáfu honum leyfi til að fara austur aftur og vera þar eftirleiðis. Fór hann svo austur með konu sinni og bjó með henni alla ævi á Austfjörðum, og fór vel fyrir þeim. Félagar hans reyndu ekki oftar til að senda honum sendingu.