Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Geitdalsdraugurinn

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Árið 1834 gerði ókyrrleiki nokkur vart við sig í Geitdal í Skriðdal, Þingmúlakirkjusókn í Múlasýslu. Þar bjó þá maður sá sem Guðmundur hét. 14. dag janúarmánaðar þ. á. sendi hann mann af næsta bæ eftir sóknarpresti sínum, séra Engilbert Þórðarsyni í Þingmúla (1820-1851), og sveitarforstjóra að þeir kæmu og rannsökuðu reimleika þann sem um það leyti varð vart í Geitdal.

Þar eð nú prestur hvorki var heima né heldur gat hreppstjóri farið sökum heilsulasleika, en sendimaður sagði að Geitdalsbónda væri mjög annt um að einn eða fleiri afbæjarmenn kæmi til sín og væri hjá sér nætursakir til þess að sjá og heyra aðfarir draugsins, fór sá sem sagt hefur sögu þessa og annar maður með honum að Geitdal meir fyrir forvitnis sakir en þess að þeir svona ótilkvaddir ætluðu sér að rannsaka það sem prestinum og hreppstjóranum var ætlað. Þegar þessir þrír menn komu að Geitdal komu konan og dóttir hennar fram til þeirra með ljós og þegar konan varð þess vör að sögumaður var heldur kímilegur yfir þessari komu sinni varð hún mótlætt og þótti sem komumenn væru að gera gys að sér. En meðan þau stóðu fimm saman með ljósið í bæjardyrunum og horfðu hvort á annað kom moldargusa á einn þeirra sem innstur stóð og virtist sögumanni sem hún kæmi úr skáladyrunum sem voru þar nokkuð innar af. Tók þá sögumaður ljósið og fór með það inn í skálann og svo í eldhúsið þar inn úr; var það sópað og fágað, en eldsgögn öll í burtu borin og eldurinn drepinn. Þar stóðu þau við litla hríð og var sögumaðurinn innstur með ljósið í hendinni. Kom þá á móti honum sótgusa úr rjáfrinu, en hann skyggndist um hátt og lágt í eldhúsinu og gat ekki séð af hvers völdum þessi sending var. Gengu þau svo aftur fram í skálann og kom þá enn yfir hinn sama moldargusa; skyggndist hann þar enn um og varð einkis vísari að heldur. Síðan fóru þau inn í baðstofu og gusaðist á þau á leiðinni þangað víst þrisvar sinnum. Þegar komumenn höfðu heilsað þeim sem fyrir voru og farið úr vosklæðum var þeim sagt að sendingar væri farnar að koma upp um uppgönguna. Varð sögumanni það þá fyrst fyrir að gæta þess hvort allt heimilisfólkið væri uppi á pallinum og þegar hann sá það þar allt með tölu settist hann á rúm gagnvart uppgöngunni. Flugu þá að honum sendingar upp um uppgönguna; var það bæði blautt torf sem reytt hafði verið úr veggjunum og mylsna af gólfinu. Þegar þetta hafði gengið um hríð fór sögumaðurinn ofan á baðstofugólf með ljós og báðir fylgdarmenn hans með honum. Var þá eins og upp væri lokið baðstofuhurðinni og leituðust þeir við að komast eftir hvernig þessu væri varið, en urðu einkis vísari. Meðan þeir voru niðri kvartaði heimafólkið yfir sendingum uppi á pallinum; fóru þeir svo upp aftur og komu þá sendingarnar sín úr hverri áttinni og gekk það nokkra stund, síðan fóru þær að koma upp um uppgönguna, en hættu uppi á pallinum. Voru þá teknar húðir og uppgangan byrgð með þeim vandlega; upp frá því bar ekki á sendingunum upp um hana um kvöldið, en undir húðirnar gengu köstin allt kvöldið fram á miðnætti; en eftir það hvarf allur ókyrrleiki um nóttina.

Morguninn eftir þegar komið var á fætur fór sami ókyrrleikinn að gera vart við sig aftur. Var svo farið í fjós og höfð nautaverk, en þá var á lofti grjót, moð og torf, sitt úr hverri áttinni. Fóru svo allir burtu úr fjósinu nema tvær stúlkur sem voru að mjólka. Gætti sögumaður þá grannt að því að þar voru ekki fleiri menn sjónarlegir en hann og stúlkurnar tvær sem mjólkuðu sína kúna hvor á móti annari, en hann stóð á flórnum á milli þeirra. Komu þá sendingar sín úr hvorri áttinni á hann og stundum úr rjáfrinu; stúlkurnar kvörtuðu og yfir því sama, en eftir því sem sendingarnar voru stærri, eftir því voru þær aflminni. Eftir þetta fór sögumaður heim til sín og rýmdi þá einn heimamaður með honum bæinn í Geitdal. En sögumaður fór þó aftur þangað um kvöldið og var þá fagnað þar sem hann væri sending frá himnum því þá var nýafstaðin hörð skothríð, og fólkið sem lítið hafði kært sig um þessar skráveifur að undanförnu var nú orðið talsvert skelkað. Sá hann nú þau vegsummerki að pallurinn allur var upprokinn með torf og mylsnu; eins voru bæði þil og rúm, en glergluggar brotnir. Þetta kvöld lét draugurinn fjúka torf og bein, diska og bækur og sitthvað annað. Eftir fyrirmælum húsbóndans tók fólkið sér þá Grallarann í hönd og sögumaðurinn með og söng á hann. Við það varð nokkurt hlé á sendingunum og angist heimilismanna minnkaði. Sögumanni þótti vænt um að svona skipaðist og allt komst í ró. En lognið stóð ekki lengi því þegar sönglistin hafði staðið nokkra stund kom hver torfuhausinn og moldarsendingin á fætur annari á sögumanninn og Grallarann. Söngnum var haldið áfram engu að síður þó þeir sem sungu færu að verða vantrúaðri á hann en áður. Hætti svo skothríð þessi uppi á pallinum, en fór aftur að koma upp um uppgönguna. Var þá uppgangan byrgð eins og áður með húðum, en þá var þeim lyft á loft. Fóru þá tveir menn á húðirnar og lágu á þeim til morguns. Sögðu þeir að svo hart hefði verið knúð á húðirnar að neðan að þeir hefðu allt að því hafzt á loft; en eftir miðnætti hætti ókyrrleikinn með öllu eins og áður.

Þessa nótt vöktu þeir alla sem á húðunum lágu og sögumaðurinn; gekk hann um gólf á pallinum og skaraði ljósin til þess bjartur dagur var. Komu þá sendingarnar að nýju. Þenna dag kom séra Engilbert að Geitdal og fjórir menn aðrir svo þá voru þar sjö karlmenn aðkomandi. Þegar prestur var kominn inn í baðstofu skall torfuhnaus á eyra hans. Prestur stekkur þá upp alvarlegur og biður þann aldrei þrífast sem stýrt hafi þessari sendingu og vísar honum með fullum stöfum í helvíti. Þegar hinir gestirnir höfðu orðið fyrir sömu kveðjum og prestur stökkva þeir og upp með stóryrðum og ætla að hremma þann sem stýrt hafi sendingunum, en gripu þá heldur en ekki í tómt. Um þetta leyti var farið að rökkva og var allt fólkið látið fara úr frambaðstofunni inn í afþiljað hús í öðrum baðstofuendanum; var húsið þétt og vel um vandað nema hvað það vantaði svo sem tveggja þumlunga breiðan kálf í mitt þilið upp undan húsdyrunum og að það var hurðarlaust. Í þetta hús var safnað saman flestöllu heimilisfólkinu og sumum gestunum, því tveir þeirra stóðu í húsdyrunum með sína byssuna hvor steytta, sögumaður öðrumegin dyra við uppgönguna fyrir framan húsið, en prestur hinumegin dyranna og maður með honum sem sögumaður kaus til þess; stúlka ein af heimafólki var þar og fyrir framan sem sögumaður hafði grun á að ætti einhvern þátt í þessum draugabrellum og hafði hann því einkum augastað á henni. Þegar búið var að skipa fólkinu þannig niður sem nú var sagt létu skotmennirnir hvorki skorta skot né heitingar, en þá kom úr mannlausa baðstofuendanum ómælt af torfi og öðru því sem á loft mátti færa. Þegar þessi skothríð hafði gengið um stund vita Skytturnar ekki fyrri til en á þá er kastað innan úr húsinu þar sem fólkið var taðkögglum og spýtum og sínu sinni hverju sem fyrir varð rétt í opna skjöldu, en við það hætti skothríðin frammi á pallinum. Sneru þá Skytturnar inn í húsið og gjörðu þá harða hríð á móti þessum ófögnuði. Aðkomumennirnir stóðu í sömu röð sem fyrr var frá sagt nema skytturnar og gættu hvernig fólkið hagaði sér og sendingunum reiddi af. En allt fór sem fyrri að þeir urðu einkis vísari um það af hverjum toga allt þetta var spunnið. Baðstofan var orðin full af púðurreyk svo varla var við vært og var þá hætt byssuskotunum, en ókyrrleikinn hélzt við eins og áður fram á miðnætti. Það segja aðrar sagnir að þegar byssuskotin hrifu ekki hafi prestur látið fólkið setjast við sálmasöng, en hann hafi haldið ræðu (vígslu) til að útrýma þessum ófögnuði. En í miðri ræðunni hafi verið sent úr auða enda baðstofunnar beizlisstöngum og tóbaksjárni sem þar átti að liggja á hillu hvort tveggja, á nefið á presti og kumlaðist hann nokkuð af því og hætti vígslunni. Um morguninn eftir kom sami ókyrrleikinn enn á gang og fór þá allt fólkið úr bænum, bæði heimamenn og aðkomandi. Karlmaður og kvenmaður fóru þangað næsta dag eftir til að þjóna gripum og urðu þá einkis vör. Flutti fólkið sig svo heim aftur og hefur ekkert á þessu borið síðan.

„Að þessu sem nú er sagt hér að framan var ég með óskertum skilningarvitum, að lykt undan tekinni, sjónarvottur og skildi ekki og skil ekki ennþá hvurnig þessu var varið. Margrætt hefur verið um þetta síðan og sumir merkismenn segja og útbreiða að þetta narrarí hafi verið af heimilismanna völdum. Mér datt það oft í hug, líka við þá og þá sending er ég fékk þar fremra, að heimilisfólk væri að þessu, og ætlaði að fá sannfæringu upp á það, en varð forgefins, sendingarnar so mildar að þær gjörðu ekki skaða nema glergluggunum. Það var líka hættulegt þegar eldurinn fannst hingað og þangað um bæinn, var samt á gólfinu. Það sá ég ekki og ekki neinn fyrr en hann fannst um hábjartan dag þar og þar. Og þeir sem mest illyrtu sendingarnar og hentu á móti þeim fengu þær mestar. Aldrei voru sendingarnar nema á einum stað í senn.“