Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Goggur

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Goggur

Líkastur Mórunum er draugur sá vestur í Breiðafirði er Goggur heitir, en gogg kalla menn járnkrók sem kofur og lundar eru dregnar með út úr holum sínum eður þá ífæru er fiskimenn hafa til að bera í stórdrætti sem koma undir borð.

Um Gogg er löng saga fyrir vestan; um upptök hans er mér ókunnigt nema hvað mig minnir að hann sé uppvakningur og svo til kominn að maður heitaðist við Ólaf nokkurn bónda í Ólafsdal að hann skyldi senda honum sendingu. Er ekki sagt frá því hvernig það atvikaðist, en skömmu síðar átti Ólafur þessi leið utan frá Stóraholti og inn að Ólafsdal þar sem hann bjó. Leiðin liggur inn með fjörum og var aðfall sjávar og farið að dimma. Á miðri leið eru hólar sæbrattir sem Moldhólar eru kallaðir og er þar skuggalegt, og segir ekki af því nema þegar Ólafur kom að Moldhólum kom að honum lítill púki með krókhúfu á höfðinu. Ókind þessi slóst nú í ferð með Ólafi og vildi ávallt ganga síðar, en Ólafur varaðist hana og gengu þeir þannig langa leið inn eftir fjörum að Goggur fór ávallt í bug við Ólaf þangað til kom inn á Ólafsdalseyrar fyrir neðan bæinn í Ólafsdal, þar gat draugurinn komizt aftan að Ólafi, og segir ekki af skiptum þeirra nema Ólafur fannst þar dáinn um morguninn, en atvik þessi öll dreymdi konu hans heima á bænum þessa sömu nótt. Eftir þetta fylgdi Goggur og fylgir enn í dag, að sögn manna, Ólafsdalsætt.