Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Guðbrandur og Mókollur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Guðbrandur og Mókollur

Maður hét Guðbrandur og var Jónsson; var hann mikill fyrir sér bæði til sjós og lands; átti hann gott bú og gnægð fjár, var hann og fyrirhafnarmaður hinn mesti, en kallaður var hann miðlungi góðgjarn, illur viðfangs og ójafnaðarmaður og fégjarn. Guðrún hét kona hans og fékk gott orð; hún var Þorgrímsdóttir.

Er það eitt talið til dæma um fégirni Guðbrands að sagt er hann ætti að eiga einn son einkabarna, rauðbirkinn á hár, tíu eða tólf vetra gamlan, og seldi hann sveininn Hollendingum, fiskiveiðamönnum, því sagt er að fá vildi þeir blóð hans til lækninga og gyldi fyrir hann sökum þess fé ærið. – Margar eru og fleiri slíkar sagnir hér á landi um eftirsókn þeirra eftir rauðbirknum mönnum. – Sagt er að jafnskjótt og Hollendingar þessir kæmi út í fjarðarmynnið hengdi þeir sveininn upp á fótum, styngi hann svo og töppuðu blóð úr honum og hafi hljóð hans heyrzt á land, en Guðbrandur segðist hafa fengið hann útlendum mönnum til læringar. Og svo ógurlegar voru munnmælasagnir um Guðbrand; var hann og illa þokkaður af alþýðu manna.

Þó var það að hann ól upp sveina nokkra fyrir aðra er sagt er hann væri góður. Eru til þess nefndir Jón Ísleifsson og Kristján Guðmundsson.

Guðmundur faðir Kristjáns er Guðbrandur ól upp var kallaður blóðtökumaður, lagði þær og mjög fyrir sig og heppnaðist oft vel. Kallað var að hann færi með kukl. Hann var Einarsson, norðlenzkur að ætt og kvaðst vera dótturson Duggu-Eyvindar frá Ingveldarstöðum á Reykjaströnd Jónssonar er síðar fékk Kirkjubæjarklaustur. Er mála Eyvindar getið á alþingi.

Guðmundur bjó að Litlakróki á Rauðasandi og lítt er sagt hann vildi á dreif drepa þó kallaður væri hann margfróður. Þá bjó Guðbrandur á Kvígendisdal. Voru þeir Guðmundur vinir og því fóstraði Guðbrandur Kristján son hans, en er Kristján var vaxinn svo nokkuð, var það að hann orti nokkuð níðslega af gamni um Guðrúnu fóstru sína konu Guðbrandar og mundi hann þó lítt stökufær. Varð Guðbrandur þess var og barði á honum; var hann og maður svakalegur og lítt gætinn þegar hann reiddist, en Kristján kærði það fyrir föður sínum.

Lék síðan orð á að Guðmundur vekti upp svein einn úr Bæjarkirkjugarði og sendi hann Guðbrandi og Guðrúnu konu hans. Er það sagt að kvöld eitt þá er þau Guðbrandur sátu á palli inni sýndist þeim að flygsa ein lágvaxin sæktist að komast upp á pallstokkinn. Varð Guðrúnu bilt og bað fyrir sér, en Guðbrandur brást reiður við og skipaði djöfli þeim í burt að dragast og sækja þar að er hann væri frá kominn, greip hlandkopp sinn og skvetti úr af pallinum fram, fór síðan út eftir flygsunni með bölvi og heitingum, ef hún hlýddi ei skipan sinni; hvarf hún síðan á bruttu og fann ei þau Guðbrand síðan.

Þá er sagt að Gvöndur á Litlakróki blóðtökumaður yrði mállaus hið sama kvöld með flogi og fékk hann ei að gjört; héldust þau við hann lengi, þó bötnuðu honum þau að lyktum.

Bjarni bóndi Pálsson bjó þá að Stórakróki. Hafði hann misst barn ungt; var það sveinn og grafinn í Bæ. Nokkru síðar gróf Eyjólfur prestur Kolbeinsson lík er aðstoðarprestur var Jóns prófasts Ormssonar í Sauðlauksdal, og kom upp með öðrum grefti barnsstokkur heill og nýlegur, en brotið gat á skúrinn. Ætla menn það yrði fyrir graftólunum. Urðu menn þess varir að ekkert væri í stokknum nema bót lítil af líkblæjunni. Þótti grafarmönnum það kynjalegt vera. Einn þeirra hét Þorkell, sá mælti: „Þetta kalla ég góða eign. Skal ég hafa stokkinn í skúffu (handraða) í skrínuna mína,“ varpaði honum síðan í loft upp yfir kirkjuna og kom hann heill niður. Sást af því að eigi mundi hann fúinn vera. Var þetta sagt Eyjólfi presti; bað hann menn hafa fátt um það, lét slíkt oft verða mega. Af því þótti auðsært að hann vildi það á dreif drepa, en réði Þorkeli til að draga stokkinn sundur ef hann hygði hann sér til nytja. En það var fyrir þá sök að prestur mundi til algjörla hvar barn Bjarna Pálssonar var jarðað, en síðan er pati kom af því fyrir Bjarna gjörðist hann allhnugginn áður Eyjólfur prestur gat talið hug í hann því ella vildi Bjarni ei kyrrt láta.

Það er sannlega sagt að þá Guðbrandur bjó á Geirseyri vistaði hann mann þann er Halldór hét Ólafsson hjá ekkju er Helga hét á Hamri á Barðaströnd, en fara skyldi hann til Guðbrandar ári síðar. Réri Halldór vor það vestur í Víkum, en er hann kom heim til húsmóður sinnar á Hamar kom þeim það saman að hann yrði kyrr hjá henni. Ritaði því Halldór Guðbrandi og bað hann uppgjafar á vistinni; svaraði Guðbrandur honum, en hét öngu um það. Enn ritaði Halldór honum og aftók þá með öllu til hans að fara, mætti hann ei yfirgefa einstæðingsekkju með mörgum börnum.

Nú leið enn um nokkra hríð þar til Halldór á Hamri fær bréf frá Guðbrandi innsiglað. Var þá viðstödd kona nokkur þar úr nágrenni er Ingibjörg Jónsdóttir hét. Bað hún hann að lofa sér að rífa upp bréfið og lesa, en Halldór færist undan. Er þá mælt að Ingibjörg hafi sagt: „Sjá þú þá til, Halldór minn, að betur fari.“ Að því töluðu opnaði Halldór bréfið; en í því vetfangi er hann reif bréfið upp flaug fluga ofan í hann; og það sá Ingibjörg. Varð Halldór þegar að vörmu spori sjúkur, lagðist rúmfastur, ærðist og dó að fám dögum liðnum. Halldór þessi var grafinn sem siður er til. En litlu síðar sáu menn draug í mannslíki; einkum gekk hann um á Hamri og næstu bæjum, en svo lýstu menn draugi þessum að hann væri á mórauðum peysugarmi, svörtum buxnagörmum, með mórauða lambhúshettu þríbrotna á höfði, á vöxt við fjórtán eða fimmtán vetra piltungsmann, og fyrir það var hann kallaður Mókollur. Þó nefndu sumir hann Móra. Lítt var Mókollur magnaður og ei gerði hann mikið mein, en smáhrekki. Þess urðu menn varir þegar hann lá á þekjum úti á húsum, bæði á Hamri og Vöðlunum, bæði efri og neðri, og fleirum bæjum í nánd, þá sýktust menn þar undir er hann lá úti yfir þeim. Þegar rökkva tók stóð hann víða í skotum, húsahornum og krókum og lét þá til sín heyra: „Hviss, hviss,“ og flugu þá frá honum eldglæringar, en þegar nær var komið hvarf hann frá. Hann tók utan um menn og kreisti, en það þótti nokkuð dáðlaust, og í myrkri tók hann yfir hönd kvenna og kreisti. Varð ein fyrir því með öðrum sú er Rósa hét, dóttir sambýlismanns Helgu, ekkjunnar á Hamri. Rósa var rösk, tók á móti Mókolli og glímdi við hann og hrakti hann út úr bænum. – Rósa giftist síðan, en oft vitjaði hann þá Rósu og ættmanna hennar.

Oft var það að ynglingar á Hamri og Vaðli urðu varir við Mókoll, vildi hann helzt hræða þá. Sáu þeir hann glöggt eins og honum var lýst, en hann hvarf í hvert sinn er að honum var ráðizt.

Guðmundur bóndi Jónsson á Vaðli sá Mókoll margsinnis og mætti honum. Kvað Guðmundur hann ganga þar um alla bæi sem mennskan mann. Er sagt að Mókollur segði þá við mann einn eða fleiri hálfvakandi á Vaðli: „Ég get hvergi verið fyrir bölvuðum glyrnunum í djöflinum honum Vaðals-Gvendi og henni Bergjakots-Imbu!“ – því bæði voru þau kölluð skyggn og gat hann aldrei forðazt þau.

Þess er áður getið að Mókollur fylgdi oft ættmönnum Rósu frá Hamri og væri það af því að hann tók að fylgja Gunnlaugi bónda Gíslasyni í Raknadal, og haldið er að einhver óvildarmaður Gunnlaugs magnaði hann þá meira; var hann þá af sumum kallaður Raknadalsdraugur.

Gunnlaugur átti Sigríði dóttur Þórðar lögréttumanns á Haukabergi Jónssonar, en þau voru börn Gunnlaugs og Sigríðar: Þórður bóndi á Hnjóti; Ingibjörg, átti Jón Bjarnason í Kollsvík, Guðrún og fjórða Kristín er átti Jón prestur Vestmann Jónsson, fátæks bónda, Úlfssonar, Jónssonar. Jón prestur Vestmann hafði numið undir skóla með Jóni prófasti Ormssyni. Varð hann fyrst aðstoðarprestur Þorkels prests Guðnasonar á Múla og bjó í Austurbæ í Flatey. – Skáld var Vestmann prestur og vel gáfaður, en það varð er Gunnlaugur dó, faðir Kristínar, að hún tók fásinnu mikla með óeirð og sem utan við sig, var jafnan ofurhrædd um mann sinn hvað sem hann fór frá henni, en sýndi honum þó fályndi þess á milli. Var þetta kennt Mókolli því orðinn væri hann að ættarfylgju. Mikið mein var þetta Vestmanni presti, en hafði þó lengi til varnar hund er hann kom með að vestan og Skjambi hét; lá hann úti nótt hverja; heyrðu menn til hans og sáu að hann stökk upp með gnurri og gelti. Var að sjá hann elti þá eitthvað í burtu. Kvaðst prestur hafa hann til að mæta komendum, en það varð að sá maður er Páll hét, son Guðmundar smiðs í Bjarneyjum Sigurðarsonar, drap hundinn fyrir presti. Þótti honum það illur missir, kvaðst heldur hefði viljað missa kú sína og þó tvær hefði verið. Sagt er og að konu hans versnaði meira fásinnan síðan.

Fjögur voru talin börn Vestmanns prests og Kristínar í Flatey: Ingibjörg er vestra var með móðurfrændum; Guðmundur, varð ei gamall; Sigríður, varð ei með heilli sinnu og sem með aðsóknum, dó vestra, og Guðný.

En er Vestmann prestur fékk Kálfafell á Síðu og fluttist austur var kona hans flutt í Ísafjörð til Jóns læknis í Ármúla Einarssonar. Var hún þar tvö eða á þriðja ár, að sagt er, og gjörði lítið eður ekki að um fásinnu hennar. Lét síðan fylgja sér austur til manns síns og batnaði þá með öllu fásinnan er hún kom að Kálfafelli. Kristín var sögð væn kona og góðlát ef hún gat verið með sjálfri sér. En sagnir eru það vestra að Mókollur fylgdi henni allt austur að Jökulsá á Sólheimasandi og snéri þar vestur aftur í átthaga sína.

Sögn sú er höfð eftir Sigurði Breiðvíking Sigurðarsyni er síðar bjó að Vaðli að oft sæi hann Mókoll er hann ólst upp í Breiðuvík, sæti hann oft um ljósa daga á rúmum ella kistum og berði fótastokk, stundum heyrðist til hans undir rúmunum, en sérlegast væri þá bóndinn í Kollsvík hefði atyrt Mókoll eitt sinn og þegar næst var þá til fjárins farið fannst vænsta ærin bónda dauð með þeim hætti að henni var troðið niður í sprungu litla á bergi einu; hafði og sprungan stækkað mjög er örmjó var áður og enginn kviksvoði.

En það er af Guðbrandi að segja er menn kenndu um ófagnað þennan í fyrstu að á seinustu búskaparárum hans brann auður hans mestur í skemmu á Geirseyri. Fór hann þá nokkru síðar að Bæ á Rauðasandi til Jóns fóstursonar síns Ísleifssonar, síðasta manns Jóhönnu Eggertsdóttur, og dó þar allgamall 1848.