Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Háleiti-Bjarni

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Háleiti-Bjarni

Jón Sigurðsson hefur maður heitið; hann bjó á Sæunnarstöðum í Hallárdal; hann var langafi frú Guðrúnar Blöndahl. Jón átti sjö drauga og geymdi þá í skála einum fram í bænum. Þótti mönnum hark að heyra í skálanum er gengið var fyrir á kvöldin. Rifu þeir þá upp steina og stokka og börðust með. Var það vandi Jóns er hönum þótti fram úr keyra að hann gekk að skáladyrum og sagði: „Hafið þið ekki grjótið í gamninu, piltar,“ og hættu þeir þá.

Þá bjó Sigríður, ekkja nokkur, á Vakursstöðum; hún var fátæk og félítil. Það var einn sumardag að hún var ein heima með barni, en fólk annað á engjum; veit hún þá ekki fyrri til en hún heyrir öskur mikil og veit að þar muni vera kominn boli Jóns á Sæunnarstöðum, sem var manneygur og illur viðureignar. Tók hún þá það ráð að hún lokaði bænum, en batt barnið upp um sperru í baðstofunni, en sjálf fól hún sig í skoti einu. Boli mölvaði bráðum bæjarhurðina og rauk inn; en er hann sá enga manneskju snéri hann út aftur. En er boli þrengdist út um bæjardyrnar tók Sigríður orf með ljá er reis upp við í bæjardyrunum og rak ljáinn á hol í kviðinn á bola; tók hann síðan á rás með orfið, en féll dauður niður skammt frá bænum. Þessu tiltæki Sigríðar reiddist Jón og sendi henni einn drauginn, sem kallaður var Háleiti-Bjarni. Kvaldi hann Sigríði bæði dag og nótt svo hún hafði hvergi frið þangað til hún flutti að Syðriey; þar bjó þá Finnur, langafi Magnúsar Pálssonar er þessa sögu sagði, og gat hann varið hana þegar hún lá fyrir ofan hann í rúminu, en annarstaðar ekki. Finnur hafði kálfa undir baðstofupallinum, en það gagnaðist þó ekki því Háleiti-Bjarni drap þá alla. Einhverju sinni var Finnur að smíða járnsmíði fram á kvöldvöku, og bóndinn á Ytrahóli var í smiðju með hönum. En er þeir komu út um kvöldið og bóndi ætlaði heim til sín sáu þeir eldglæringar miklar fram á götunum milli bæjanna; mættust þeir þar þá Háleiti-Bjarni og Snæringur, draugur framan úr Svínadal. Varð þar ekki af kveðjum, heldur hlupu þeir undireins saman og varð ekki milli séð. Réði þá Finnur bóndanum að verða hjá sér um nóttina og verða ekki á vegi þeirra kumpána.